140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála þeim meginsjónarmiðum sem komu fram í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að það sé mjög mikilvægt að efla opinbera starfsemi sem víðast á landinu og ekki síst á landsbyggðinni. Hins vegar hef ég efasemdir um að festa í lög að tiltekin starfsemi og tilteknar stofnanir skuli vera reknar á einum stað fremur en öðrum.

Í áætlun sem kölluð er sóknaráætlun 20/20, nokkuð sem mér finnst hálfhvimleið nafngift þótt margt í innihaldinu sé afar gott. Þar er að finna hugmyndir um samþættingu á stjórnsýslu hins opinbera, sveitarfélaga og ríkisins, með það fyrir augum að efla þjónustukjarna á landsbyggðinni. Ég vek athygli á því að í samgönguáætlun sem var til umræðu í gær og svo aftur í morgun hefur orðið ákveðin áherslubreyting frá fyrri samgönguáætlunum. Áður var lögð höfuðáhersla á að hvar sem menn væru staddir á landinu skyldi vegakerfið þannig hannað að þeir væru sem fljótastir til Reykjavíkur. Nú er hugsunin orðin önnur. Nú er hugsunin sú að efla samgöngur innan einstakra landshluta og síðan landshluta á milli. Áherslan er á þjónustukjarna og samgöngur á einstökum landsvæðum. Með þessari áherslubreytingu verða engin heljarstökk, það er alveg rétt, en hún er vísbending um hvert við viljum stefna. Við viljum efla landsbyggðina og landshlutana sem sjálfstæð og öflugri þjónustusvæði en þau eru nú.