140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi gjaldbreytingar tengjast þær í sjálfu sér ekki þessum frumvörpum á nokkurn hátt. Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður setur fram og snúa að fjárhagslegri hlið og skiptingu hins meinta fjárhagslega ávinnings o.s.frv. ítreka ég að við munum sjá til þess að allar forsendur sem tölulegar staðhæfingar byggja á verði gerðar nefndinni aðgengilegar. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í málflutningi hans nú og fyrr í dag að það er grundvallaratriði að nefndir þingsins og Alþingi sem löggjafarvald og fjárveitingavald hafi aðgang að öllum tölulegum upplýsingum þannig að allar ákvarðanir sem Alþingi tekur byggi á upplýstum grunni.

Það hefur verið alvarleg brotalöm í okkar stjórnsýslu og í störfum Alþingis og ég vonast til að það eigi að breytast því að í því er ekki síst fólgið uppgjörið við hrunið.