140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

loftferðir.

349. mál
[14:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lögum um loftferðir. Meðal annars er um að ræða breytingar og lagfæringar á ýmsum göllum sem komið hafa í ljós við framkvæmd laganna og hafa einnig verið tilefni athugasemda erlendra úttektaraðila við lögin. Styrktar eru ýmsar heimildir Flugmálastjórnar Íslands til aukinnar neytendaverndar og gjaldtöku vegna neytendamála. Heimildir til lögreglu vegna bakgrunnsathugana vegna flugverndar eru styrktar og gerðar skýrari. Ákvæði eru lögð til vegna innleiðingar viðauka 9 við Chicago-samninginn um flugvirkt, sem mun vera þýðing á enska hugtakinu „facilitation“, og einnig eru lagðar til breytingar til komnar vegna fyrirhugaðrar innleiðingar Evrópureglugerða.

Frumvarpið var unnið í samráði við sérfræðinga innanríkisráðuneytisins og Flugmálastjórnar Íslands og sent til umsagnar flugráðs og flugtengdra aðila auk þess sem frumvarpið er birt á heimasíðu ráðuneytisins. Tók frumvarpið nokkrum breytingum vegna athugasemda sem bárust.

Ég vík að athugasemdum við helstu greinar frumvarpsins. Í 1. gr. er lagt til ákvæði um starfrækslu og lofthæfi loftfara sem ekki falla undir reglur flugöryggisstofnana Evrópu og sinna lög- og tollgæslu, leit og björgun, slökkvistarfi, landhelgisgæslu eða sambærilegum verkefnum. Skulu slík loftför uppfylla sambærilegar kröfur og gerðar eru til starfrækslu annarra loftfara samkvæmt loftferðalögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Ástæða setningu þessa ákvæðis er sú að almennt er það svo í hinu alþjóðlega regluverki að starfræksla loftfara er undanskilin ákvæðum almennra laga á sviði loftferða en ríkisloftför eru skilgreind sem þau loftför sem notuð eru í þágu her-, tolla- eða lögreglustarfsemi.

Hingað til hefur flugrekstur Landhelgisgæslunnar fallið undir ákvæði loftferðalaga án þess að hægt sé að fella starfsemina að öllu leyti undir sömu reglur og gilda um almennan flugrekstur í atvinnuskyni. Flugöryggisstofnun Evrópu gerði athugasemdir við þetta fyrirkomulag í úttekt hér á landi og af þeirri ástæðu er lagabreytingin lögð til.

Í 8. gr. er skerpt á hlutverki Flugmálastjórnar Íslands hvað varðar eftirlit með því að skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum á sviði flugmála séu uppfylltar og kveðið á um að stofnunin hafi með höndum að kveða á um hverjar skuldbindingar flugvalla séu samkvæmt alþjóðaskuldbindingum.

Í 9. gr. er lagt til ákvæði um flugvirkt en í flugvirkt felst samhæfing opinberra aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farangur og farm til að loftflutningar geti gengið snurðulaust fyrir sig. Er ráðherra í ákvæðinu veitt heimild til að setja reglugerð um flugvirkt og gerð flugvirktaráætlunar og einnig er lagt til að ráðherra skipa flugvirktarráð sem skal meðal annars vera samráðsvettvangur og sjá um gerð áætlunar á sviði flugvirktar. Ákvæðið er til komið vegna innleiðingar á viðauka 9 við Chicago-sáttmálann sem Ísland er aðili að.

Í 12. gr. er lagt til að styrktar verði heimildir til bakgrunnsskoðana lögreglu vegna flugverndar. Í ákvæðinu er kveðið á um að áður en Flugmálastjórn Íslands, rekstraraðili flugvallar, þjónustuaðili flugleiðsögu eða flugrekanda er heimilt að veita einstaklingi aðgang að haftasvæði flugverndar, viðkvæmum upplýsingum um flugvernd eða heimila honum að sækja námskeið í flugverndarþjálfun skuli óska eftir bakgrunnsskoðun og öryggisvottun lögreglu. Synji lögregla einstaklingi um öryggisvottun er fyrrgreindum aðilum óheimilt að veita viðkomandi aðgang að haftasvæði flugvalla. Er í ákvæðinu kveðið á um að viðkomandi einstaklingi skuli gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en lögregla kemst að niðurstöðu og einnig eigi hann rétt á rökstuðningi ákvarði lögregla að synja honum um öryggisvottun. Er ákvörðun lögreglu um synjun kæranleg til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Í gildandi lögum er að finna ákvæði um bakgrunnsskoðanir lögreglu en hefur það reynst nokkuð óskýrt í framkvæmd og því eru breytingar lagðar til. Breytingar á Evrópureglugerðum um flugvernd hafa leitt til umtalsverðrar aukningar á fjölda bakgrunnsathugana en sú aukning hefur nú þegar leitt til tafa á afgreiðslu lögreglunnar. Nauðsynlegt er því að gripið verði til ráðstafana til að tryggja lögreglunni nægjanlegt fjármagn vegna framkvæmda reglnanna og mun ég leggja til við hv. umhverfis- og samgöngunefnd tillögu að lagabreytingu þar að lútandi.

Í 16. og 18. gr. eru lögð til ákvæði vegna neytendaverndar þar sem lagt er til að ábyrgð flytjanda á tjóni sem orsakast af því að tímaáætlun flytjanda stenst ekki, taki jafnt til atvika þar sem brottfarartíma er flýtt eða honum seinkað. Í gildandi lögum er eingöngu fjallað um ábyrgð flytjanda vegna seinkunar en lagt er til með frumvarpinu að flytjandi sé einnig ábyrgur vegna tjóns sem verður þegar flugi er flýtt. Hafa aðstæður sem sköpuðust í kringum Eyjafjallagosið árið 2010 sýnt fram á að reynt getur á bæði tilvikin. Þá mæla neytendasjónarmið með því að löggjafinn taki af skarið að þessu leyti. Með aukinni áherslu á neytendavernd hefur umfang kvartana á grundvelli ákvæða loftferðalaga stóraukist. Gert er ráð fyrir að áframhald verði á þessari þróun, meðal annars í ljósi aukinnar vitundarvakningar almennings í neytendamálum. Hefur málafjöldi Flugmálastjórnar Íslands vegna kvartana aukist umtalsvert eða úr 20 málum árið 2009 í 130 mál árið 2010. Eðlilegt er talið að eftirlitsskyldir aðilar taki að einhverju leyti þátt í þeim kostnaði sem leiðir af starfsemi þeirra og því er lagt til í 20. gr. að Flugmálastjórn Íslands verði veitt heimild til að innheimta gjald vegna kostnaðar af kvörtunum sem berast frá neytendum og leiða til ákvörðunar stofnunarinnar. Gjaldið verður því ekki innheimt vegna tilhæfulausra kvartana. Þannig á gjaldtökuheimildin einnig að vera hvati fyrir eftirlitsskyldan aðila að leysa mál tengd kvörtunum neytenda áður en kemur til kasta flugmálayfirvalda.

Í 21. gr. er lagt til að rekstraraðili flugvalla skuli verða við beiðni Umhverfisstofnunar um að aftra för loftfars uns lögmælt gjöld vegna losunar gróðurhúsalofttegunda er varða viðkomandi loftfar eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra. Umhverfisstofnun hefur umsjón með framkvæmd viðskiptakerfis um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Nokkuð af þeim flugrekendum sem falla undir umsjón stofnunarinnar eru frá Norður-Ameríku og hafa enga fasta starfsemi hér á landi. Þykir því nauðsynlegt að mögulegt verði að stöðva loftför vegna ógreiddra gjalda hafi aðrar leiðir reynst árangurslausar.

Í 22. gr. er Eftirlitsstofnun EFTA veitt heimild til að leggja sektir á fyrirtæki sem hafa skírteini útgefin af Flugöryggisstofnun Evrópu samkvæmt tillögu Flugöryggisstofnunarinnar vegna brota af ásetningu eða gáleysi á reglum á sviði stofnunarinnar enda sé sú starfsemi sem tillaga um sekt grundvallast á óheimil samkvæmt loftferðalögum og reglum settum samkvæmt þeim. Þessi breyting hefur nú þegar komið til umræðu á Alþingi. Í EES-samningnum er einungis kveðið á um heimildir ESA til að leggja sektir beint á íslenska aðila í samkeppnismálum og því álitaefni hvort ESA sé heimilt að gera slíkt vegna flugmála. Af þeirri ástæðu kom málið til umfjöllunar Alþingis.

Utanríkismálanefnd fjallaði ítarlega um málið og þann 10. júlí síðastliðinn samþykkti Alþingi þingsályktun um að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í samninginn þá Evrópureglugerð sem hér um ræðir. Sú lagabreyting sem lögð er til í 22. gr. er nauðsynleg til að innleiðing gerðarinnar í íslenskan rétt verði möguleg.

Að lokum er í 23. gr. lagt til það nýmæli að kveðið sé á um heimild til Flugmálastjórnar Íslands til að annast heimildarveitingar og úthlutun réttinda er lúta að framkvæmd alþjóðasamninga á sviði flugmála. Með ákvæðinu er kveðið skýrt á um heimild stofnunarinnar til að binda nýtingu heimilda og réttinda þeim skilyrðum sem hún telur nauðsynleg, takmarka þær eða synja um útgáfu með það að markmiði að tryggja jafnræði aðila. Einnig er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglugerð sem m.a. skuli miða að því að auka gagnsæi umsýslu milliríkjasamninga sem falla undir viðkomandi ákvæði. Þá er kveðið á um að setja eigi í reglugerð ákvæði sem útfæri með hvaða hætti skuli staðið að veitingu heimilda á þessu sviði, þar með talið umsóknarferli og skilyrði úthlutunar. Jafnframt er í ákvæðinu kveðið á um hvaða almennu sjónarmið eigi að taka til grundvallar við úthlutun heimilda þegar um takmörkuð réttindi er að ræða.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Hæstv. forseti. Þetta er síðasta málið sem tekur fyrst og fremst á samgöngumálum. Við eigum eftir að fjalla um landslénið .is og siglingalögin. Þá mun ég hafa uppi þau orð sem ég hugðist flytja nú, síðar.