140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

siglingalög.

348. mál
[15:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarp til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985.

Með frumvarpi þessu legg ég til að innleidd verði í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingar skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010 sem birt var 7. október 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 56/2010.

Tilskipunin er til fyllingar alþjóðlegri siglingalöggjöf þar sem að þjóðarétti hvílir engin almenn skylda á útgerðarmönnum að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila. Hún er hluti af Erika III, þriðja siglingaöryggispakka Evrópusambandsins. Helstu markmið hans eru að fyrirbyggja sjóslys, tryggja að ákveðnar ráðstafanir séu gerðar þegar slys verða og að styrkja eftirlit með gæðum skipa.

Frumvarpið tekur til allra skipa sem eru 300 brúttótonn og stærri, með þeirri undantekningu að undir frumvarpið falla ekki herskip, aðstoðarskip sjóherja eða önnur skip í eigu eða útgerð ríkis sem eingöngu eru starfrækt í þjónustu hins opinbera en ekki í atvinnuskyni. Kveðið er á um að öll skip sem sigla um íslenskt hafsvæði undir fána aðildarríkis Evrópusambandsins og skip sem koma hér til hafnar þurfi að hafa ábyrgðartryggingu sem samsvarar efri mörkum þeirrar upphæðar sem mælt er fyrir um í bókun frá 1996 um breytingu á samningnum um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum frá 19. nóvember 1976.

Ísland er hvorki aðili að alþjóðasamþykktinni né bókuninni frá 1996 en hefur tekið upp ákvæði þeirrar síðarnefndu í IX. kafla siglingalaga, nr. 34/1985, samanber lög nr. 159/2007 sem tóku gildi 1. janúar 2009. Ábyrgðartakmörkunarreglur í íslensku siglingalögunum eru sambærilegar þeim sem eru í dönsku, finnsku og sænsku lögunum.

Gerð er sú krafa að um borð í hverju skipi sé skírteini því til staðfestingar að tryggingarskyldunni sé fullnægt og er það á höndum hafnarríkiseftirlits að framkvæma slíka skoðun í skipum þegar þau koma til hafnar í aðildarríki. Í frumvarpinu kemur jafnframt fram hvaða upplýsingar skírteini þarf að innihalda svo að það teljist vera gilt.

Varðandi aðrar tryggingar sem kveðið er á um í siglingalögum er þess ekki krafist að um borð í skipinu sé skjal er staðfesti gildi vátryggingar og er því um auknar kröfur samkvæmt frumvarpinu að ræða miðað við gildandi rétt. Má sem dæmi nefna að í 2. mgr. 172. gr. siglingalaga segir að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla. Ekki er hins vegar minnst á skyldu til að hafa skjal því til staðfestingar að hann hafi slíka tryggingu.

Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.