140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

267. mál
[15:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011.

Í frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um heimild til þess að kæra úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili til æðri dóms.

Lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, öðluðust gildi 30. júní sl. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er vísað til þess að um meðferð mála samkvæmt lögunum fyrir héraðsdómi gildi ákvæði XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Þá er í 18. gr. laganna kveðið á um að ákvæði laga um meðferð sakamála gildi um málsmeðferð samkvæmt lögunum eftir því sem við á.

Í dómi Hæstaréttar frá 14. október sl. í máli nr. 557/2011 var kæru á úrskurð héraðsdóms vísað frá Hæstarétti þar sem ekki væri fyrir hendi heimild til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Í dóminum er vísað til þess að sérstaka kæruheimild sé ekki að finna í lögum um nálgunarbann, nr. 85/2011. Þá segir að þótt ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skuli gilda um málsmeðferð samkvæmt lögunum eftir því sem við á, samanber 18. gr. þeirra, falli hinn kærði úrskurður ekki undir neina af kæruheimildum 192. gr. laga um meðferð sakamála og slík heimild verði ekki heldur fundin annars staðar í lögum. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Ljóst er að hinum nýju lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili var ekki ætlað að fella úr gildi heimild til þess að bera úrskurð héraðsdóms undir æðri dóm enda felur slík heimild í sér að betur er gætt að réttaröryggi þeirra sem í hlut eiga. Er því í frumvarpi þessu lagt til að lögunum verði breytt á þá leið að í þeim verði að finna sérstaka kæruheimild að því er varðar úrskurði héraðsdóms um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili til æðri dóms. Gert er ráð fyrir að kæruheimildin taki jafnt til úrskurða þar sem fallist hefur verið á slíka kröfu eða henni hefur verið synjað. Er þá ráðgert að sömu reglur gildi um slíka kæru, þar á meðal um fresti, form hennar, efni og meðferð, og kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála, samanber XXX. kafla laganna.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.