140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Takmarkaðar viðræður hafa farið fram á milli þessara aðila frá því að frumvarpið kom fram síðast en áður höfðu farið fram skoðanaskipti og mér er fullkunnugt um afstöðu eigenda þessa fyrirtækis. Að sjálfsögðu vil ég að búið verði þannig um hnútana að farið sé fram af sanngirni og þannig að hægt sé að reka fyrirtækið með eðlilegum hætti. En ef menn vilja ræða hvað hafi verið gert eðlilega og hvað óeðlilega á þessu sviði í tímans rás þá átti náttúrlega hið óeðlilega sér stað árið 2000 þegar þessi starfsemi var einkavædd og fyrirtækið selt fyrir verð sem var vægast sagt mjög umdeilanlegt að mínu mati.

Ég sagði að mér væri ekki kunnugt um verðlagsbreytingar á undanförnum mánuðum eða missirum en ég hef verið upplýstur um það í hliðarsal að verðið hafi reyndar lækkað um 1.000 kr. núna fyrir áramótin, í desembermánuði, farið úr 7.900 kr. niður um 1.000 kr. skilst mér, þannig að rétt skal vera rétt. Ég vil reyna að hafa þetta eins rétt og hægt er þar sem ég fór með rangt mál við umræðuna síðast.

Mér finnst eðlilegt að við búum þannig um hnútana að hagsmuna neytenda sé gætt í hvívetna. Það viljum við að sjálfsögðu, það er meginmarkmiðið. Síðan þarf náttúrlega að vera hægt að reka þetta fyrirtæki með eðlilegum hætti. Við höldum hér fyrst og fremst utan um hagsmuni skattgreiðenda, og við horfum til neytandans, en við viljum líka koma fram af sanngirni við þetta fyrirtæki.