140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, þó finnst mér vanta aðeins inn í þau. Ég kallaði eftir því hvort hæstv. ráðherra teldi það vera eðlilegt og sanngjarnt rekstrarumhverfi að fyrirtæki sem hefði starfað eitt á þessum markaði fái fimm ára samning án þess að vera með pósitíft ákvæði í samningnum. Það geta allir verið sammála um markmiðið um að tryggja hag neytanda. Mér finnst hins vegar koma staðfesting á því hvernig forsvarsmenn fyrirtækisins og fyrirtækið sjálft hefur staðið sig í texta frumvarpsins, þar sem er sagt að þetta sé eitt af öruggustu lénum heims. Mér finnst það vera töluvert jákvætt fyrir fyrirtæki að fá þá umsögn.

Nú er lagt til að lagður verði á einhver lénaskattur, þ.e. 4,9% af veltu fyrirtækisins — 4,9% fara til Póst- og fjarskiptastofnunar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist það ekki óeðlilega hátt gjald og hvort hann þekki til þess að í öðrum löndum sé sérstakur lénaskattur. Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér, vegna þess að það er nú samstarf á erlendum vettvangi kringum þessi lén, hvort ekki sé hætta á að starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar leggist í ferðalög og séu þá á einhverjum ráðstefnum og peningarnir fari í það.

Ég man eftir því í umræðum um þetta mál í meðferð samgöngunefndar á sínum tíma að forsvarsmenn fyrirtækisins gera engar athugasemdir við að greiða fyrir útselda vinnu hjá viðkomandi stofnun, engar athugasemdir, en mér finnst mjög óeðlilegt að leggja á 4,9% skatt. Þetta er gríðarlega há tala af veltu félagsins sjálfvirkt inn í eitthvert eftirlitsbatterí á vegum ríkisins. Það væri eðlilegra að Póst- og fjarskiptastofnun væri bara með útselda vinnu, seldi fyrirtækinu þá þjónustu sem lýtur að eftirlitsþættinum.