140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra bregst við því sem gerðist í fortíðinni og jafnvel áður en fyrirtækið var í eigu þeirra einstaklinga sem bera ábyrgð á rekstri þess núna. Það er mjög sérstök umræða.

Ég gerði alvarlegar athugasemdir við að það skyldi standa í lagatextanum að borist hefðu óformlegar kvartanir. Mér finnst það ekki eiga að standa þar, það er mín persónulega skoðun. Við getum hins vegar verið sammála um að vera ósammála ef hæstv. innanríkisráðherra telur vel hægt að hafa í lagatexta að borist hafi óformlegar kvartanir, þá er það bara hans val. Ég er hins vegar algerlega ósammála hæstv. ráðherra um að slíkt eigi að standa í lagatexta.

Síðan kemur í svari hæstv. ráðherra: Ja, það var kannski einhvern tíma fyrr á tíð, í fortíðinni. Þetta stenst náttúrlega enga skoðun. Menn geta deilt um athugasemdir mínar og sagt: Þegar fyrirtæki eru í eigu ríkisins er allt í lagi að hafa einhvern skatt — og þurfa síðan ekki að spá og spekúlera neitt í því frekar og bera það saman við neitt annað. Það sem ég var einfaldlega að segja og skil ekki er að menn skuli vera tilbúnir að setja svo háa skattprósentu, þ.e. veltuskatt, í álagningu á fyrirtækið. Það heldur því enginn fram og allra síst sá sem hér stendur að fyrirtækið eigi ekki að greiða opinberum aðilum fyrir þá þjónustu sem það fær. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt. Það gerir enginn athugasemd við það, en að setja fasta krónutölu inn í veltu fyrirtækisins finnst mér ekki vera hægt. Við sjáum það í hverju málinu á fætur öðru að eftirlitsstofnanirnar bólgna út, þær fara ekki að fjárlögum eða neinu því að þær hafa svo sterka tekjustofna og leggja bara aukin gjöld á atvinnulífið. Þess vegna segi ég: Ég er ósammála því að hafa veltuskatt, það er miklu nær að Póst- og fjarskiptastofnun þurfi að skrifa út reikninga fyrir þeirri þjónustu sem viðkomandi fyrirtæki fær og rukka það. Ég er ekki að halda því fram að fyrirtækið eigi ekki að greiða opinberum aðilum fyrir þjónustuna sem það fær.