140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén, afskaplega mikilvægt mál og verður sífellt mikilvægara eftir því sem netið þróast og það þróast með þvílíkum hraða að það er varla að auga á festi.

Uppruni netsins er eins og kunnugt er í háskólum, síðan komu heryfirvöld inn, einkaaðilar og svo ríkisstjórnir. Það er sjálfsprottið og hefur enga miðju. Það er aðalstyrkur þess og var hannað í upphafi því að þannig er það ekki eins næmt fyrir árásum. Það er auðvelt að ráðast á einhverja miðju en það er erfitt að ráðast á eitthvað sem er út um allt.

Það frumvarp sem við ræðum verður ekki skoðað nema í sambandi við einkavæðinguna sem átti sér stað hér og hefur verið rædd og hafði bæði haft kosti og galla. Það voru ekki bara ókostir við einkavæðinguna. Menn geta reynt að ímynda sér Landssímann enn sem eina símafyrirtækið í landinu og þá þróun sem hefur orðið í símavæðingu landsins. Menn geta raunar líka ímyndað sér Landsbankann gamla með stjórnmálamenn, alþingismenn og ráðherra í bankaráði. Menn geta reynt að sjá það fyrir sér hvaða þróun hefði þá orðið í fjármálastarfsemi og tengslum við útlönd. Ég er ekki viss um að einkavæðingin hafi verið slæm, fyrir utan það að ríkið er miklu áfjáðara í að hafa eftirlit eða fylgjast með fyrirtækjum sem ekki eru ríkisfyrirtæki. Það er ekki mikill vilji til að fylgjast með fyrirtækjum sem eru ríkisfyrirtæki, þá tala menn við kollega og vini. Það er ákveðinn kostur að hafa fjarlægð á milli ríkisvaldsins og fyrirtækja.

Það er hins vegar alveg á hreinu að .is er nokkuð sem gefur einokun, menn geta ekki haft tvö slík lén. Árið 2005, þegar einkavæðingin gekk yfir, hefðum við átt að setja einhverjar reglur um það hvaða skilyrðum svona fyrirtæki ættu að lúta. Það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að hann neyðist til að eiga við þetta fyrirtæki og ekkert annað ef hann vill hafa endinguna .is í sínu léni. Hann gæti náttúrlega haft erlenda endingu og þá er úr miklu að moða og það er það sem ég ætla að koma inn á. Það er einmitt gífurleg samkeppni í sölu og leigu á lénum og örugglega hægt að komast miklu ódýrar frá því en þá kemur inn atriði sem líka hefur verið nefnt hér sem er öryggi lénsins og hvað það er opið fyrir árásum og öðru slíku. Það er líka hluti af þessu dæmi.

Ef við metum bara hvað íslensk heimili eru mikið netvædd þá segir það mér að starfsemi þessa fyrirtækis hafi verið með ágætum. Ísland er með langsamlega mestu netvæðingu á alla mælikvarða, að minnsta kosti ofarlega í öllum mælikvörðum, númer eitt, tvö, þrjú eða fjögur, í heiminum. Einkavæðingin hefur því ekki verið til tjóns að því leyti. Hins vegar geta menn deilt um verðið fyrir þjónustuna. Ég var þarna kúnni einhvern tíma og mér þótti það dýrt og hætti meira að segja vegna þess að mér þótti það of dýrt. Samkeppnin er mjög lítil nema gagnvart erlendum lénum.

Í frumvarpið er laumað inn skatti í b-lið 6. gr., 4,9%. Þetta er óskaplega hár skattur. Hann er í líkingu við aðstöðugjaldið í gamla daga sem var 1% og algerlega óháð öllum rekstri fyrirtækisins. Það skipti engu máli hvort það var hagnaður eða tap eða hvernig það var rekið, þetta var bara flatur skattur sem fór hagfræðilega séð beint til neytenda. Ég mundi leggja til að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar vísi þessum lið yfir til hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem sér um skattlagningu á vegum þingsins.

Nú er spurningin: Er einhver hér inni í þeirri ágætu nefnd? Þá bið ég hv. þingmann að koma þessum skilaboðum til nefndarinnar. Mér finnst það vera orðinn ósiður, frú forseti, að nefndaformenn sitji ekki — ókei, hann er þarna, fínt. Ég átti að vita þetta. Þá fara sem sagt allar upplýsingarnar beint í æð. Ég legg sem sagt áherslu á að nefndaformenn séu yfirleitt og eigi að vera við 1. umr. mála þannig að þeir geti borið efni umræðunnar til nefndanna.

Greinargerðin með frumvarpinu er á margan hátt fróðleg. Mér finnst þó að hún hefði mátt vera meira tæmandi í sambandi við þróunina og hvernig þetta hefur verið notað. Sums staðar hafa ríki selt aðgang að léninu sínu og eru nokkur dæmi um það hér o.s.frv. Ég ætla ekki að kafa dýpra ofan í það.

Mér finnst sjálfsagt að nefndin skoði þetta einkavæðingarferli og eins hvernig skipta má milli þess að úthluta lénum annars vegar og hins vegar að reka þau, hvort ekki sé ástæða til að hafa eitthvert sérbatterí sem úthlutar lénum og afskrifar þau á móti hinum sem bara reka þau, þ.e. sjá um öryggið og slíkt sem er verulega mikilvægt. En ég vil taka það fram að samkeppnin er mjög mikil á þessu sviði gagnvart útlöndum. Það er ekki alger einokun ef menn sætta sig við að nota eitthvað annað en .is.

Það vill svo til að is hefur ákveðna þýðingu í tungumáli sem er víða talað, mjög útbreitt, sem er enska. Að því leyti geta lén verið mjög skemmtileg, samanber were.is og here.is o.s.frv. á ensku. Frú forseti. Ég sagði þetta á ensku til að útskýra, ég get ekki sagt þetta á íslensku. Við getum því gefið þessum lénum aukið vægi umfram önnur lönd sem reyndar hafa sum hver líka svona skemmtilega tilvísun.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en ég legg til að hv. nefnd leggist vel yfir málið vegna þess að þetta er mikið atriði fyrir bæði samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem vilja helst hafa .is sem endingu og einstaklinga sem vilja sömuleiðis hafa slíkt, t.d. stjórnmálamenn. Það þykir kannski ekki gott að hafa enska endingu hjá stjórnmálamanni sem er þjóðernissinnaður þannig að hann neyðist til að eiga viðskipti við þetta fyrirtæki.

Ég vil sem sagt gjarnan að nefndin skoði þetta vel og fari í gegnum þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég kom sérstaklega inn á reglugerðarákvæðið. Ég held að það eigi að fara burt og kannski koma með reglugerð um einstakar greinar ef ástæða þykir til en lögin eiga náttúrlega að vera svo tæmandi að ekki þurfi reglugerðir út og suður og alls ekki svona allsherjarreglugerð.

Varðandi þennan tíma, fimm ár sem á að veita fyrirtækinu með bráðabirgðaákvæði, held ég að það þurfi að skoða hann pínulítið meira og lengja hann eitthvað, hafa að minnsta kosti framleigu eða að hægt sé að semja um framhald ef á þarf að halda. Það er ekki boðlegt að hafa bara fimm ára framtíð.