140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Hæstv. ráðherra kvartaði undan því að það hefði vantað í málflutning þeirra hv. þingmanna sem tekið hafa þátt í umræðunni að þeir bæru hag notenda og skattgreiðenda fyrir brjósti. Ég tek það reyndar ekki til mín, vegna þess að það staðfestir í raun og veru það sem stendur í frumvarpinu, hagur notenda hlýtur að felast í því að þetta lén er með öruggustu lénum í heimi og hlýtur að staðfesta að hagur notendanna sé prýðilegur. Hæstv. ráðherra gat sérstaklega um það og leiðrétti það sem hann sagði í fyrri umræðu um málið á síðasta þingi, að fyrirtækið hefði hækkað gjöld. Það lækkaði gjöldin og hefur nú lækkað þau enn frekar, þannig að það hlýtur að vera skattgreiðendum í hag, ég held að við séum alveg sammála um það.

Hins vegar kalla ég eftir því við hæstv. ráðherra að hann svari spurningu sem ég beindi til hans, en hún hefur líklega farið fram hjá hæstv. ráðherra. Það er í fyrsta lagi hvort ráðuneytið hafi skoðað hvort það geti skapað ríkissjóði skaðabótaskyldu ef starfsleyfið verður einungis til fimm ára.

Þar sem mér finnst mjög vasklega gengið fram í skattlagningu, þá er ég að tala um þessi 4,9%, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er skattgreiðsla annarra fjarskiptafyrirtækja til Póst- og fjarskiptastofnunar? Ef ég man rétt var talað um 0,3% í svipaðri umræðu fyrir tæpu ári síðan. Ég er ekki viss um að það sé rétt og þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst mig um hvað önnur fjarskiptafyrirtæki greiða til Póst- og fjarskiptastofnunar.