140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[16:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru í mínum huga, eins og ég skildi þetta, bara almenn sjónarmið gegn því að forsjármál fari fyrir dóm. Það er út af fyrir sig athyglisverð afstaða. Ég deili því með hæstv. ráðherra að það er óheppilegt að forsjármál fari fyrir dóm en þau gera það engu að síður.

Það er til dæmis bara ágætur rökstuðningur í greinargerð með frumvarpinu fyrir því að sé heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá fyrir hendi muni það auka líkur á sátt í sáttameðferð. Ég tel það bara vera býsna sterk rök.

Ég endurtek spurningu mína: Að því gefnu að sum mál fari fyrir dóm á þá ekki dómari — miðað við áherslur frumvarpsins og áherslur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til dæmis — að skoða hvað er barni fyrir bestu? Ef það er niðurstaða hans að meginformið, sameiginleg forsjá, sé barni fyrir bestu, vegna þess kannski að báðir foreldrar eru hæfir, af hverju má hann ekki komast að þeirri niðurstöðu?

Ég vil vísa í greinargerð með frumvarpinu. Þar stendur að sjónarmið í forsjár- og umgengnisdeilum verði þó að vera nokkuð opin og háð mati þar sem niðurstaða í hverju máli verði að ráðast alfarið af hagsmunum þess barns sem deilt er um. Ef dómari kemst að þeirri niðurstöðu, eftir vandaða málsmeðferð, að það sé sameiginleg forsjá sem er barni fyrir bestu, hvers vegna má hann þá ekki dæma þannig?