140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[16:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek svar mitt. Vegna þess að ég tel að hann geti ekki vitað betur. Besta lausnin, varanlega lausnin, varanlegasta lausnin, er þegar foreldrar ná sátt. Á þessa sáttamiðlun hefur ekki raunverulega reynt á Íslandi vegna þess að við höfum ekki staðið nægilega vel að þeim málum.

Ég vil líka vekja athygli á einu: Með fullri virðingu fyrir réttarkerfi taka réttarkerfi breytingum og viðhorf innan réttarkerfis taka breytingum og eru að taka breytingum. Það var mjög merkileg ráðstefna sem var haldin hér fyrir nokkrum dögum á vegum innanríkisráðuneytisins og annarra aðila um kynferðisbrot. Það sagði við mig erlendur sérfræðingur sem hingað kom að hann hefði aldrei upplifað það áður að saman væru komnir á einni ráðstefnu dómarar, fulltrúar grasrótarsamtaka, kvennahreyfinga, kvennaathvarfa og lögreglumenn tugum saman til að ræða hvernig kerfið gæti breytt sér.

Ég tel að umræða um þessi efni hafi ekki farið fram í nægilega ríkum mæli á Íslandi. Ég held að það eigi líka við réttarkerfin í Danmörku. Ég treysti réttarkerfunum ekki til að taka hina einu réttu afstöðu, ég treysti þeim ekki. Ég treysti hins vegar foreldrum til þess að ná sátt ef þau fá nægilega leiðsögn í því efni, ef þeim er skapað umhverfi og aðstoð til að gera slíkt. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir réttarkerfinu, en það er nú einu sinni þannig að það má gagnrýna það eins og önnur mannanna verk.

Það er staðreynd að reynslan frá Norðurlöndum, sem við höfum verið að skoða, er alls ekki á þann veg að það sé óvefengjanlegt að okkur beri að fara þessa leið. Við eigum að skoða allar leiðir og ég tel að við eigum að skoða reynsluna af því að fara (Forseti hringir.) sáttaleiðina eins og lagt er til í þessu frumvarpi.