140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:13]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega ekki hingað kominn til að veita andsvar, það er frekar í ætt við samsvar eða stuðningssvar því að mig langar í örfáum atriðum að taka meira eða minna undir með hv. þingmanni í öllu því sem hann rakti, kom inn á og talaði um.

Ég vil skora á nefndina sem tekur á málinu, sem er þá væntanlega allsherjar- og menntamálanefnd, að íhuga vandlega hvaða leið við förum í málinu vegna þess að eins og hv. þingmaður rakti eru fjölmörg rök með því í greinargerðinni sjálfri að opna á þá heimild að dómari geti dæmt um sameiginlega forsjá, t.d. um þann almenna rétt barnsins að þekkja báða foreldra sína og njóta umönnunar þeirra og almennt beri að stuðla að því að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á því að ala upp barn og koma því til þroska. Það er almennt talið barni fyrir bestu að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð. Sameiginleg forsjá hvetur almennt til aukinnar samábyrgðar og þátttöku beggja foreldra og eykur líkur á tengslum barns við báða foreldra sína. Heimild dómara er talin geta haft jákvæð áhrif á samstarfsvilja foreldra og sporna jafnvel gegn því að annað foreldri krefjist þess að fá eitt forsjá vegna tilfallandi deilumála, segir í greinargerð frumvarpsins.

Aukin heldur segir að heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá geti þannig út af fyrir sig aukið mikilvægi og gagnsemi ráðgjafar og sáttaumleitana þegar foreldrar deila um forsjá. Öll hin ríkin á Norðurlöndum hafa lögfest heimild fyrir dómara til að ákveða sameiginlega forsjá. Hér er sem sagt gripið niður á einum tilteknum stað í greinargerðinni.

En margt fleira mætti telja vegna þess að hér erum við eingöngu að tala um heimildarákvæði. Ég tel og tek undir með hv. þingmanni að breyta eigi þessu frumvarpi á þann veg að heimila eigi dómurum þann möguleika að dæma um sameiginlega forsjá.