140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Segjum svo að hv. þingmenn séu aldrei sammála. Ég er alveg tilbúinn til að leggja hv. þingmanni lið í því og að setjast yfir það með honum að skoða líka þennan þátt málsins. Ég efast ekki um að það eru einhverjir annmarkar á því að vera með skipt lögheimili en ég lít hins vegar svo á að hafi eitthvað breyst í þjóðfélagi okkar þá eru það þessir þættir. Það heyrði kannski til undantekninga fyrir 30–40 árum að börn væru frá heimilum þar sem foreldrar höfðu skilið. Það er bara ekki þannig lengur. Og sem betur fer er það svo, og um það eru mýmörg dæmi svo það sé sagt, að fólk sem skilur reynir að búa eins nálægt hvort öðru og mögulegt er, í sama hverfi og slíkt, til að gefa börnunum tækifæri til að fara á milli. Margar slíkar góðar sögur eru til. En nákvæmlega eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson vísar til þá erum við að búa hér til tæki sem hægt er að nota og við skulum bara horfast í augu við að slíkt er notað. Í deilum milli hjóna sem eru að skilja eða eru skilin nota aðilar stundum, jafnósanngjarnt og það er, atriði eins og lögheimili og nýta sér þá rétt sem þeir hafa samkvæmt lögum. Það er auðvitað mjög slæmt og er ábyrgðarhluti að ýtt sé undir slíkt af okkur þingmönnum og búið til.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni og er meira en tilbúinn til að setjast yfir þessi mál með honum.