140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[18:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er best að gefa hv. þingmanni tækifæri á að koma fleiri upplýsingum á framfæri í seinna andsvari en ég held að við séum algerlega sammála í þessum málum. Eins og ég sagði vill Framsóknarflokkurinn skoða tvöfalt lögheimili þó að það skref hafi ekki verið tekið annars staðar á Norðurlöndunum. Eins og ég skil rökin gegn því fyrirkomulagi í greinargerðinni snúast þau meira um tæknilegar ástæður en annað, að það hangi á ýmsum réttindum sem börn hafa tengd lögheimili varðandi þjónustu í sveitarfélagi. Það sé erfitt fyrir sveitarfélög að barn sé til dæmis með lögheimili í tveimur sveitarfélögum, hver á þá að veita þjónustuna, borga hana o.s.frv. Ég held að hægt sé að finna lausnir á þessu. Það er örugglega svolítið flókið að greiða úr því en ég hugsa að til sé lausn. Ég held því að það ætti að skoða þetta en þá verða menn auðvitað að fara mjög vandlega yfir þessi réttindi og hvernig hægt er að koma þeim fyrir. Á að semja um það fyrir fram að annað sveitarfélagið veiti ákveðin réttindi en hitt önnur? Ég held að í greinargerðinni sé verið að vísa til tæknilegra atriða.