140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[18:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé ekki svo flókið. Mér finnst í öllu falli gríðarlega mikilvægt að komast úr þeirri stöðu að þeir foreldrar sem sannanlega ala upp börn sín eftir skilnað og veita þeim alla þá ástúð og umhyggju og aðstæður sem þeir mundu veita börnum þó að skilnaður hefði ekki orðið, og ég sjálfur er slíkt foreldri, þeir fá til dæmis ekki að haka við á skattframtali að þeir hafi þetta barn á framfæri sínu. Það barn býr bara ekki hjá þeim þó að það geri það sannanlega. Á nemendagörðum eru til dæmis herbergin ekki nægilega stór, að ég held, ef barnið er ekki þar með lögheimili. Við höfum einhvern veginn smíðað þannig skipulag á Íslandi sem er mjög fjandsamlegt þeim foreldrum sem þó kjósa að ala upp börnin sín saman eftir skilnað.

Nú ætla ég vísa í nokkuð í greinargerðinni sem er mjög merkilegt. Það var gerð rannsókn árið 2008 meðal barna á Íslandi í 6.–10. bekk grunnskóla og alls svöruðu 11.813 börn rannsókn undir yfirskriftinni Jafnt til skiptis?: Tvískipt búseta barna og samskipti þeirra við foreldra. Niðurstaða rannsakenda var sú að samskipti barna í tvískiptri búsetu við foreldra virtust vera jafngóð og þeirra sem bjuggu hjá báðum kynforeldrum sínum. Sem sagt, enginn munur var á líðan þeirra barna sem bjuggu í jafnri búsetu og umgengust foreldra sína jafnmikið eftir skilnað og líðan þeirra barna sem bjuggu hjá báðum kynforeldrum sínum. Þessi niðurstaða gefur ótvírætt til kynna að við eigum að stefna að þessu og (Forseti hringir.) hanna umgjörðina þannig að foreldrar velji jafna búsetu, bjóða upp á það.