140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[18:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Svo tölurnar séu réttar er talað um skilnaðarmál almennt árið 2008, 1.003 börn fengu sameiginlega forsjá foreldra sinna, 152 fóru til móður og 12 á því ári enduðu með því að faðirinn fékk forsjá af einhverjum ástæðum. Það bendir til þess að meginreglan sé á engan hátt sú að jafnræði ríki milli feðra og mæðra varðandi niðurstöðu skilnaðarmála almennt.

Það er gott að við séum búin að hreinsa andrúmsloftið hérna varðandi ýmislegt tengt ofbeldismönnum í þessu máli. Það vakir á engan hátt fyrir mér í málflutningi mínum að leggja til að ofbeldismenn fái í auknum mæli forsjá yfir börnum sínum.

Sú meginregla vakir fyrir mér að í ákvörðunum er varða börn eigi það að ráða sem er börnum fyrir bestu. Það liggur fyrir að sum mál munu fara fyrir dóm, alveg sama hvaða áherslu við leggjum á sáttameðferð, sem ég tek undir að við eigum að gera. Þá tel ég það alveg ótrúlega þröngsýnt viðhorf að halda að heimildarleysi dómara til að dæma sameiginlega forsjá sé barni alltaf fyrir bestu. Ég held að það geti mjög auðveldlega verið barninu fyrir bestu að foreldrunum sé dæmd sameiginleg forsjá, eins og hefur sýnt sig í Danmörku þar sem þannig hefur verið dæmt í 50% tilvika.

Hæstv. ráðherra nefnir Danmörku og að 50% þeirra sem dæmd hefur verið sameiginlega forsjá talist ekki við. Það sýnir okkur að þetta er ekki einfalt úrlausnarefni. Það sýnir okkur þó líka (Forseti hringir.) að 50% talast við. Að hæstv. ráðherra skuli bara nefna Danmörku bendir líka til þess, (Forseti hringir.) eins og rakið er ágætlega í greinargerðinni, að þetta hefur jafnvel tekist betur á hinum Norðurlöndunum.