140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

almenn hegningarlög.

344. mál
[18:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég óska hæstv. innanríkisráðherra til hamingju með að koma fram með þetta frumvarp, það tekur á mjög mikilvægum málum sem er brýnt að lögfesta sem fyrst á Íslandi til að vernda börn. Það eru sérstaklega tvö atriði sem ég vil gera að umtalsefni þó að hægt væri að hafa langt mál um fleiri atriði.

Í 1. gr. er fjallað um að hægt verði að refsa eftir íslenskum lögum fyrir brot sem íslenskur ríkisborgari eða borgari sem er búsettur hér á landi á verknaðarstundu fremur erlendis, þrátt fyrir — það er mikilvægt að undirstrika þetta — að verknaðurinn teljist ekki refsiverður eftir lögum þess ríkis þar sem brotið fór fram, í þessu tilviki kynferðisbrot gegn börnum. Ef einhver brýtur af sér erlendis þar sem lagaumhverfið er lélegt, sem það er í fjölmörgum ríkjum, sérstaklega í þróunarríkjum, þá er hægt að dæma viðkomandi eftir íslenskum lögum. Mér finnst þetta mjög mikilvægt af því að þetta verndar börn um allan heim gegn brotum sem fólk, kannski aðallega frá hinum vestræna heimi, fremur í fátækari ríkjum. Til að reyna að segja þetta á mannamáli þá verndar þetta líklega börn í fátækum ríkjum gegn barnaníðingum sem ferðast sérstaklega til þeirra ríkja til að fremja brot, velja sér í raun þannig ríki til að fremja brot af því þeir halda að þeir komist upp með það af því að þar er löggjöfin tæpast til staðar á þessu sviði.

Þannig að ég fagna því mjög að menn líti yfir landamæri að þessu leyti og hafi ákveðið að eltast við þá sem fremja svona alvarleg brot yfir landamæri.

Hitt atriðið sem ég vildi gera að umtalsefni er það sem vísað er til í 23. gr. samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Þar er fjallað um hvað löggjöf okkar hefur verið bágborin. Nú á að bæta úr því. Í 23. gr. samningsins er fjallað um þau tilvik þar sem fullorðnir einstaklingar falast eftir börnum í kynferðislegum tilgangi, á ensku „grooming“. Í ákvæðinu er kveðið á um að samningsríkin skuli gera refsiverð vísvitandi tilboð fullorðins manns með tilstyrk upplýsinga- og fjarskiptatækni um að hitta barn sem hefur ekki náð kynferðislegum lögaldri í þeim tilgangi að barnið taki þátt í einhvers konar kynlífsathöfnum eða til þess að framleiða barnaklám, enda hafi tilboðinu verið fylgt eftir með eiginlegum athöfnum sem leiða til fundar hins fullorðna og barnsins. Við höfum ákveðna reynslu af slíku og þess vegna erum við að taka á málunum.

Hér er líka farið aðeins yfir norsku og sænsku löggjöfina en þar er að finna ákvæði þar sem þetta kemur einmitt fram, þ.e. að hinn fullorðni hafi mætt til fundar við barnið. Það er alveg nóg. Það er refsivert.

Í greinargerðinni er vísað til reynslu okkar og getið þriggja dóma Hæstaréttar frá 23. október 2008. Í þeim málum voru þrír menn ákærðir fyrir tilraun til kynferðisbrots með því að hafa miðvikudaginn 10. janúar 2007 farið í íbúð í Reykjavík í því skyni að hafa kynferðismök við 13 ára stúlku sem þeir gerðu ráð fyrir að hitta þar til kynferðismaka í samræmi við ráðagerðir í samskiptum við viðmælanda á spjallrás á netinu þann 10. janúar 2007, sem sagðist vera 13 ára stúlka. Í raun var stúlkan á spjallrásinni uppspuni sjónvarpsþáttarins Kompáss á Stöð 2. Þetta mál er rakið nokkuð í greinargerðinni og síðan kemur fram, virðulegur forseti, að niðurstaða Hæstaréttar í öllum þremur málunum var að sýkna ákærðu. Ég ætla að vitna beint í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Talið var að þegar samskipti ákærðu á spjallrásinni við svokallaða tálbeitu væru virt í heild benti allt til að þeir hefðu talið að þeir mundu hitta þar 13 ára stúlku í því skyni að hafa við hana kynferðismök, enda væru skýringar þeirra á för sinni þangað afar ósennilegar. Gegn neitun ákærðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms varð sakfelling á hendur þeim hins vegar ekki reist á þeim gögnum einum sem ákæruvaldið byggði á og fengin voru með þeim hætti sem lýst væri nánar í héraðsdómnum. Í héraðsdómnum kemur fram að netsamskipti ákærðu við þáttagerðarmennina eða tálbeituna gætu ekki talist sönnun um það að þeir hafi haft ásetning til þess að fremja brotið sem þeir voru ákærðir fyrir. Helgaðist matið af því hvernig stofnað var til samskiptanna og að gögnin, sem til urðu við gerð þáttarins, hefðu lítið sönnunargildi í málunum. Þá gætu samskipti á netinu, líkt og þessi, þar sem ýmislegt væri sagt sem ekki ætti neitt skylt við raunveruleikann, ekki orðið grundvöllur sakfellingar í opinberu máli.

Að virtri niðurstöðu Hæstaréttar í framangreindum málum og 23. gr. samningsins er lagt til í 4. gr. frumvarpsins …“

Og þetta, virðulegur forseti, er einmitt það sem á að gera, það er lagt til að lögfest verði sérstakt refsiákvæði sem verði ný 4. mgr. 202. gr. hegningarlaganna, sem taki til þeirrar háttsemi að maður mæli sér mót við barn, yngra en 15 ára, í gegnum netið eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni, í því skyni að brjóta gegn því kynferðislega, samanber nánari umfjöllun um 4. gr. frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Ef þetta ákvæði hefði verið orðið að lögum þegar þetta mál kom upp, hefði dómurinn ekki fallið svona í Hæstarétti, þá hefðu þessir menn verið sakfelldir. Hér eftir, ef þetta frumvarp verður samþykkt að óbreyttu, verður refsivert ef fullorðinn einstaklingur mælir sér mót við barn, yngra en 15 ára, í gegnum netið eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni, til dæmis með SMS eða símtali, í því skyni að brjóta gegn því kynferðislega. Hér er því um talsvert meiri skýrleika að ræða varðandi þessi brot. Þarna er vafinn, ef við getum orðað það svo, látinn vera barnsins megin. Ef einhver fullorðinn einstaklingur mælir sér mót með fjarskiptatækni við svona ungt barn í kynferðislegum tilgangi dugir það að mæla sér mót, til að sakfella viðkomandi.

Ég tel því að ef þetta verður samþykkt muni það vernda börn með miklu sterkari hætti en nú er, sérstaklega með vísun í þessa hæstaréttardóma þar sem mönnunum var sleppt. Hér eftir er hægt að dæma fyrir það að mæla sér mót við barn, yngra en 15 ára o.s.frv. Ég tel líka að þetta muni hafa fælingarmátt í för með sér og sé til bóta. Ég vil lýsa því að ég styð þetta frumvarp sem hæstv. innanríkisráðherra hefur lagt fram, ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og mun gera allt til að greiða fyrir því að það fari hratt og örugglega í gegnum þingið.