140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú í upphafi þessa mánaðar gumaði ríkisstjórnin sig af því að hafa setið við völd í þrjú ár, ein verklausasta ríkisstjórn sem við Íslendingar höfum fengið yfir okkur. Á sama tíma berst okkur þingmönnum skýrsla frá 17 aðildarfélögum ASÍ. Skýrslan ber heitið Pacta Sunt Servanda eða samningar skulu standa. Hér er um mikinn áfellisdóm yfir ríkisstjórninni að ræða því að innihald þessarar skýrslu frá 17 aðildarsamtökum ASÍ sem hafa ályktað um störf ríkisstjórnarinnar, er allt á eina leið: Svikin loforð, skattlagning lífeyrissjóðanna, brostnar forsendur kjarasamninga.

Þann 5. maí 2011 gerði ríkisstjórnin samkomulag við Samtök atvinnulífsins og ASÍ um ákveðnar breytingar og framþróun á vinnumarkaði sem að sjálfsögðu hefur ekki gengið eftir því hver ætti svo sem að treysta þessari ríkisstjórn. Ég ætla að grípa niður í skýrsluna, með leyfi forseta. Hér stendur:

„Það er ekki ofsögum sagt að samskipti verkalýðshreyfingarinnar við ríkisstjórnina vegna vanefnda hennar á mikilvægum liðum yfirlýsingarinnar“ — frá 5. maí 2011 — „hafa verið með slíkum ólíkindum að hrikt hefur í stoðum. Í þeim erfiðleikum sem þjóðin er, hafa aðildarfélög Alþýðusambands Íslands lagt mikla áherslu á að skapa forsendur fyrir breiðri sátt á vinnumarkaði og við stjórnvöld. […] Með gerð kjarasamninganna á síðasta ári tókst þetta verkefni. Það er því makalaust að það skuli vera ríkisstjórn Íslands sem er sá aðili sem ógnar þeirri sátt sem náðst hefur á vinnumarkaði.“

Virðulegi forseti. Er hægt að hafa fleiri orð um þetta? ASÍ og aðildarfélög ASÍ hafa fengið sig fullsödd. Þetta er áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og henni ber að fara frá.