140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að koma hingað upp til að ræða annað mál og bið hæstv. forseta um að setja mig strax á mælendaskrána eftir að ég hef lokið máli mínu innan þessara tveggja mínútna sem ég hef, því að hv. þm. Magnús Orri Schram hefur fengið mig til að beina sjónum mínum aftur að því málefni sem meðal annars við sjálfstæðismenn höfum lagt fram og það er tillaga til þingsályktunar til endurskoðunar á tollum og vörugjöldum til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Það olli mér hins vegar miklum vonbrigðum fyrr í vikunni að þó að svör hv. þingmanns um að fara í þessar breytingar væru jákvæð og viðhorf hans jákvætt heyrðist líka þessi setning, „en það er svo flókið“. Það vafðist hins vegar ekki fyrir ríkisstjórninni að fara í 170 skattkerfisbreytingar eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kallaði fram í áðan, fara í skattkerfisbreytingar sem hafa fyrst og fremst íþyngt fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Ég tel að hægt sé að fara í þá vinnu og ég tel líka að það sé hægt að fara hratt í hana.

Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram. Verslunin hefur flust allt of mikið út úr landi, ekki bara vegna hárra skatta heldur líka út af flóknu vörugjaldakerfi sem leiðir til þess að eðlilegar nauðsynjar bera miklu hærri gjöld en ella. Hvað þýðir það líka? Það þýðir færri störf. Við erum í baráttu við að reyna að fjölga störfum og ekki hefur ríkisstjórnin staðið sig með sóma í þeim efnum, miklu frekar ýtt undir fólksflutninga eins og til dæmis til Noregs eins og frægt er orðið. Ég vil hvetja hv. þingmenn og stjórnarþingmenn til dáða í þessu máli því nú er lag, sérstaklega fyrir Samfylkinguna sem í fyrsta sinn hefur fjármálaráðherrastólinn, til að breyta einmitt tollum og vörugjöldum og gera innflutning nútímalegri og í samræmi við neyslu og venjur venjulegra Íslendinga dagsins í dag í stað þess að neysluhættir séu miðaðir við árið 1986 eða 1988.