140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem hér hefur orðið um lækkun á virðisaukaskatti á barnaföt. Ég vil benda á að fyrir nokkrum árum, á 128. löggjafarþingi, lagði Páll Magnússon, þingmaður Framsóknarflokksins, fram þingsályktunartillögu um sams konar mál. Ég vil hins vegar benda á að núverandi stjórnvöld hafa hækkað skatta á á barnaföt um að minnsta kosti 1%, úr 24,5 í 25,5% ef ég man rétt. Það er því mjög gott ef stjórnvöld horfa nú til baka og ætli að reyna að færa þetta í skárra horf. Ég fagna því að sjálfstæðismenn ætli sér að leggja fram slíkt mál, ef ég hef skilið þetta rétt.

Mig langar hins vegar að koma að öðru máli. Þegar þingstörfum var að ljúka í september var samið um að settar yrðu á fót tvær nefndir, önnur nefndin um gjaldeyrishöft og hin nefndin átti að taka á peningastefnu- og gjaldmiðlamálum. Hvorug þessara nefnda hefur hafið störf. Það dróst reyndar að skipa í þær, það er rétt, fram í október, nóvember eða eitthvað slíkt en nú er löngu búið að skipa fulltrúa í þær.

Mig langar að biðja hæstv. forseta að beita sér af miklu afli gagnvart efnahags- og viðskiptaráðherra um að þessar nefndir verði kallaðar saman nú þegar. Ekki hefur verið gefið út skipunarbréf til þess fólks sem gaf kost á sér í þessar nefndir. Þar af leiðandi er ekki búið að kalla saman einn einasta fund og þetta er algerlega óásættanlegt, frú forseti. Þingið verður núna að setja ofan í við framkvæmdarvaldið í fyrsta lagi vegna þess að þetta var hluti af samningum og í öðru lagi vegna þess að sagt hefur verið í ræðustól að þessu verði hrint í framkvæmd og engin skýring hefur verið gefin á því hvers vegna þessi vinna er ekki byrjuð, ekki ein einasta.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að forseti hafi samband við efnahags- og viðskiptaráðherra og ráðuneyti hans og beiti sér fyrir því að staðið verði við það samkomulag sem hér var gert.