140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það sem hv. þm. Magnús Orri Schram, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson hafa reifað undir þessum lið í dagskránni í dag sem er mikilvægi þess að endurskoða vörugjaldakerfið og sömuleiðis virðisaukaskattskerfið. Ég vil þó leggja það inn að ég tel að endurskoðun á virðisaukaskatti á barnaföt eigi að hanga saman með heildarendurskoðun á virðisaukaskattskerfinu hjá okkur og það sé fullt tilefni til að fara í gegnum það því við á Íslandi búum við mjög háan virðisaukaskatt í alþjóðlegum samanburði. Það er eðlilegt að skoða hvaða breytingar eru réttar í þeim efnum. Ég vil þó nefna, af því að hér heyrast brýningar til Samfylkingarinnar sérstaklega sem hefur haft stjórnartaumana í fjármálaráðuneytinu í eina 30 daga, að Sjálfstæðisflokkurinn var í þessu sama ráðuneyti í 17 ár og gerði engar breytingar sem skiptu máli á vörugjaldakerfinu á þeim tíma. (Gripið fram í.)

Ég vildi koma upp og ræða um rannsóknir á þjóðþrifamálum. Við 18 þingmenn þriggja þingflokka auk óháðs þingmanns höfum lagt fram tillögu um rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna. Síðan hefur það verið kynnt í þessum þingsal í vikunni að von er á tveimur öðrum tillögum um rannsókn á atburðum sem tengdust endurreisn bankanna og sömuleiðis Icesave-málinu. Ég vil brýna þingheim til að taka öllum þessum tillögum með opnum huga og reyna að finna leið í hinni merku stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að koma þeim öllum í jákvæðan farveg þannig að við fáum í eitt skipti fyrir öll almennilega athugun á því sem gerðist við einkavæðingu bankanna þriggja í kringum aldamótin og ekki er síður mikilvægt að varpa ljósi á þá atburði sem leiddu til endurreisnar bankanna þriggja eftir hrun og sömuleiðis Icesave-málsins. Ég mundi telja að farsælast væri fyrir þingheim (Forseti hringir.) að allar þessar tillögur næðu fram að ganga.