140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir áskorun síðasta ræðumanns um rannsóknir á Icesave og einkavæðingu bankanna, bæði þá fyrri og hina síðari. En ég ætlaði að tala um allt annað, ég ætlaði að tala um sparnað.

Skattlagningarstefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til kyrrstöðu og stöðnunar. Þetta eru mistök sem voru gerð og eru enn í gangi. Nú er það þannig að fjármagn — en ríkisstjórnin að minnsta kosti hefur horn í síðu þess — er ekkert annað en sparnaður, er upphaflega innstæður almennings og byggir á sparnaði og ráðdeild. Hluti af því er reyndar skyldusparnaður í gegnum lífeyrissjóðina en sá skyldusparnaður mun fara minnkandi vegna þess að útgjöld lífeyrissjóðanna vaxa hröðum skrefum, eru um 70 milljarðar og munu eftir fimm eða tíu ár hætta að vera uppspretta fjár. Þá er spurningin hvað tekur við. Nú eru neikvæðir vextir á öllum óverðtryggðum innstæðum og þeir vextir eru meira að segja skattaðir í síauknum mæli. Það er orðið mjög vitlaust að spara á Íslandi, og mjög vitlaust að sýna ráðdeild og sparnað. Ef þetta verður þannig í nokkurn tíma í viðbót hættir Íslendingurinn að spara og þá er spurningin: Hver verður uppspretta fjár?

Nú er ofgnótt af fé í bankakerfinu. Það stafar af því að fjárfesting er í lágmarki út af þeirri stöðnun og kyrrstöðu sem ríkir og vegna þess að útlendingar eiga hér stórar fúlgur fjár sem þeir munu væntanlega taka til sín til útlanda. Spurningin er: Hvar munu börnin okkar fá lán ef við ætlum að ráðast að sparnaði með þeim hætti sem nú er gert og hefur verið gert í auknum mæli, bæði með skattlagningu á hagnað fyrirtækja, skattlagningu á arð, skattlagningu á vexti í neikvæðu umhverfi? Hvar ætlum við að fá fjármagn og getur verið að börnin okkar fái ekki lán?