140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Undanfarna daga hafa borist fréttir af því að veruleg hækkun verði á fasteignagjöldum á hesthúsum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er gríðarleg hækkun því að gert er ráð fyrir að fasteignagjöld á meðalstóru hesthúsi hækki úr 16 þús. kr. að jafnaði í 134 þús. kr. Töluvert hefur verið fjallað um þetta í fjölmiðlum og nú hefur Reykjavíkurborg sent Alþingi bréf þar sem óskað er eftir því að þessi mál verði tekin til endurskoðunar og Alþingi breyti lögum þannig að hesthús þar sem ekki er rekin atvinnustarfsemi muni færast að nýju í a-lið en undir hann heyrir meðal annars íbúðarhúsnæði og sumarbústaðir.

Forsaga þessa máls er að árið 2010 úrskurðaði yfirfasteignamatsnefnd í máli hesthússeiganda á Selfossi gegn sveitarfélaginu að hesthús og fasteignir sem væru á deiliskipulagi hesthúsasvæðis innan þéttbýlis skyldu skattlögð sem atvinnuhúsnæði. Á þeirri forsendu er verið að hækka gjöldin.

Nú hefur verið kallað eftir því að þetta verði endurskoðað og að samræmdar reglur gildi um allt land um fasteignagjöld á hesthús. Ég get sagt að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur verið að skoða þetta mál undanfarið og er með þingmál í vinnslu sem stefnt er að að dreifa á næstunni sem tekur á þessu og svarar því kalli sem kemur núna frá Reykjavíkurborg.

Við skulum átta okkur á að hestamennskan er mjög mikilvæg, ekki eingöngu sem afþreying heldur líka sem atvinnugrein. Hestamennskan hefur mátt glíma við mikla erfiðleika í kjölfarið á hestapestinni sem barst hingað frá Þýskalandi fyrir tveimur árum. Það er mjög mikilvægt að taka á þessu máli. Ég á ekki von á öðru en að um það geti ríkt breið sátt á Alþingi.