140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að engan bilbug er að finna á þessum ráðherra um að koma í framkvæmd ályktunum Alþingis. Hins vegar verð ég að segja að ég er hissa á því hversu lítill vindur er í stjórnarandstöðunni og hvað hún flýgur lágt. Það er langt síðan ég hef séð hana draga jafnlítinn arnsúg í flugnum og í þessari umræðu. Hún er gjörsamlega úr tengslum við veruleikann. Í fyrsta lagi koma menn upp og tala um hina gríðarlegu skattáþján ríkisstjórnarinnar. Lesa menn ekki alþjóðlegan samanburð? Hefur enginn í þessum sal úr liði stjórnarandstöðunnar komist að því að OECD hefur lagt mat á þetta? Þar erum við um miðja töflu varðandi skattlagningu á Íslandi. Við erum sem sagt með hóflega sköttun á Íslandi.

Síðan tala hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar um kyrrstöðu og stöðnun. Herra trúr, sjá menn ekki hvað er að gerast í íslensku samfélagi? Veit stjórnarandstaðan ekki af því að á síðasta ári var vöxtur 3,7% fyrstu níu mánuðina? Þriðja ársfjórðung var vöxtur 4,7%, þ.e. 15 sinnum meira en meðaltalið í Evrópusambandslöndunum. Vita menn ekki að síðasta árið slotaði í kringum 4% hagvöxt? Hafa menn ekki lesið til dæmis spár þeirra verkalýðshreyfinga sem hér voru rifjaðar upp áðan, og Seðlabankans, sem benda til þess að vöxtur á næstu tveimur árum verði 2,5–3%? Það er án þess að ráðist verði í nokkrar af þeim framkvæmdum sem líklegt er að detti inn á þessu ári. Það sem ríkisstjórninni hefur tekist er að koma af stað einkaneyslu. Það hefur gerst á sama tíma og skuldir landsmanna innan lands hafa minnkað og skuldir þeirra erlendis hafa minnkað. Þetta er hin heppilega blanda. Ég lít því vonbjörtum augum á framtíðina og ég segi algjörlega skýrt að að mínu viti er efnahagssamdrættinum lokið, kreppan er frá. Á þriggja ára afmæli ríkisstjórnar blasir við að búið er að moka út úr Ágíasar-fjósi Framsóknar- (Forseti hringir.) og Sjálfstæðisflokksins sem tók þá flokka næstum því 18 ár að fylla.