140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

fullgilding Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun.

341. mál
[11:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst nota tækifærið til að taka undir með hv. þingmanni hvað það atriði varðar að íslenskt lagaumhverfi nái yfir þá aðila sem fara til annarra og fjarlægari landa til þess að níðast á og brjóta á börnum. Ég held að það skipti mjög miklu máli að almennt séu landslög ríkja í Vesturheimi og annars staðar þannig úr garði gerð að þau nái yfir brot framin annars staðar. Ég held að það skipti meira máli en mjög margt annað í baráttunni gegn barnaníði, þessum viðbjóðslegasta og hræðilegasta glæp allra glæpa, að lögin séu einmitt þannig úr garði gerð. Við þekkjum það alveg og vitum af frásögnum og úr alls konar sakamálum sem upp hafa komið að menn sem eru haldnir þessum hræðilegheitum fara til annarra landa þar sem er lítið sem ekkert eftirlit með þessum hlutum eins og hv. þingmaður gat um í sinni ágætu ræðu.

Þetta eru á okkar mælikvarða að mörgu leyti vanþróuð samfélög þar sem er mikill mannfjöldi á litlum svæðum og lítið eftirlit með glæpum af þessu tagi og jafnvel oft litið fram hjá þeim í þeim tilfellum þar sem um er að ræða vændi, mansal og alls konar hluti sem því tengjast. Við eigum svo sannarlega að vinna að þessu og fylgja fordæmi Norðmanna hvað þetta varðar þannig að við þurfum að gera mikla bragarbót í þessum efnum. Eins og fram kemur í þessari skýrslu er verið að gera margt í þessum málum víða um lönd. Það er verið að taka mjög á í þessum hroðalegu málum sem lengi lágu órædd og ekki tekið mjög fast á. Nú eru breyttir tímar sem betur fer og ég tek mjög eindregið undir það að við eigum að beita okkur fyrir að þetta fari hérna hratt og vel í gegn.