140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[12:04]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil líka fá að þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það er rétt sem kom fram í upphafi hennar að sú er hér stendur hefur beðið um sérstaka umræðu um málefni Náttúruminjasafnsins þannig að þá fáum við annað tækifæri til að fara sérstaklega yfir það mál. Það er um að gera að nýta þennan tíma líka af því að Náttúruminjasafnið er mesta vandamálið núna í safnastarfseminni varðandi þessi þrjú höfuðsöfn sem við höfum á Íslandi. Það er svo sannarlega ekki safninu sjálfu að kenna, það er öðrum að kenna.

Ég vil fá að draga hin höfuðsöfnin fram áður en ég fer yfir í Náttúruminjasafnið. Það eru þrjú höfuðsöfn á Íslandi, við ákváðum það í þinginu þannig að við vorum sammála um að það væru þrjú höfuðsöfn. Það þýðir að þau eru þá stærri og hafa meira hlutverki að gegna en önnur. Þetta eru Listasafn Íslands, Þjóðminjasafnið og svo Náttúruminjasafnið.

Ef við tökum þessi fyrri tvö, Listasafn Íslands og Þjóðminjasafnið, vitum við hvar þau eru, hvað þau gera og berum virðingu fyrir því sem þar fer fram. Bæði þessi söfn sinna góðu starfi og þau eru greypt í þjóðarsálina. Við vitum hins vegar lítið um Náttúruminjasafnið enda er þar því miður nánast engin starfsemi. Það hefur verið fjársvelt og svo hafa menn hreinlega ekki náð saman. Hér hafa bæði hæstv. ráðherra og aðrir hv. þingmenn dregið fram að það hefur verið ósamstaða í kerfinu og „intrígur“ á milli embættismanna og annarra. Það hefur verið mjög erfitt að landa þessu.

Varðandi Þjóðminjasafnið langar mig að segja eitt mjög ánægjulegt um það. Þar hefur verið bryddað upp á nýjungum og á laugardaginn var opnuð þar sýning sem heitir „TÍZKA – kjólar og korselett“. Þá var líka opnuð sýning á handverkum frú Magneu Þorkelsdóttur biskupsfrúar sem var kona Sigurbjörns Einarssonar biskups. Á þessa opnun mættu held ég um 600 manns, það var biðröð. Mér skilst að fleiri hafi mætt en mættu þegar Þjóðminjasafnið var opnað eftir endurgerð. Þetta er stórmerkilegt. Þarna hittir Þjóðminjasafnið á einhvern markhóp sem vill koma á safnið og skoða þessa sýningu. Ég ímynda mér að margar konur hafi mætt þarna til leiks til að sjá kjólana sem konur klæddust á fyrri tíð og sjá handverk frú Magneu. Hún saumaði marga þjóðbúninga og mjög mikið af skemmtilegu handverki. Það er ánægjulegt hvað Þjóðminjasafnið er að gera góða hluti, svo ég dragi það aðeins fram af því að þetta er svo nálægt í tíma.

Í safnabúðinni niðri keypti ég bók um handverk frú Magneu Þorkelsdóttur, frábæra bók um handverk hennar, og gaf hana góðri konu. Ég fann til stolts, fann að þarna væri eitthvað mikilvægt á ferðinni sem mjög margir Íslendingar gætu samsamað sig og hefðu áhuga á að skoða. Ég skora á fólk að fara í Þjóðminjasafnið og skoða þessar fínu sýningar.

Varðandi Náttúruminjasafnið er maður auðvitað mjög hugsi eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hún er faglega unnin og góð og gefur manni heildaryfirsýn. Hún sýnir að Náttúruminjasafnið hefur hreinlega verið algjört olnbogabarn og ekki fengið forgang, það verður að viðurkennast. Að mínu mati sýnir skýrslan að ákveðnir aðilar hafa klikkað í þessu máli.

Mér finnst skýrslan vera nokkur áfellisdómur yfir ráðuneytinu. Hún er líka áfellisdómur yfir þinginu. Það sýnir sig að ráðuneytið hefur ekki verið nógu einbeitt í að koma þessum málum í viðunandi horf, að mínu mati þrátt fyrir niðurskurð. Það er alveg rétt að hér hefur orðið niðurskurður og það er erfitt að hreyfa sig í slíku umhverfi, en ráðuneytið hefur samt ekki farið fram af nógu mikilli einbeitingu við að koma málum í lag.

Það er líka áfellisdómur yfir þinginu af því að þegar þingið setti lögin á sínum tíma var ekki kveðið nógu skýrt á um samstarf og hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafnsins. Þessar tvær stofnanir hafa ekki náð samkomulagi. Það hafa verið erfiðleikar þar á milli. Það þýðir ekkert að fela það. (Gripið fram í.) Það ganga ávirðingar um að Náttúrufræðistofnun sé ekki nógu viljug til þess að afhenda Náttúruminjasafninu gripi. Náttúruminjasafnið sjálft er að reyna að afla sömu gripa. Hvaða vitleysa er þetta?

Það er umræða um að Veiðimálastofnun eigi að sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands. Ein hugmynd er að sameina Náttúruminjasafnið Náttúrufræðistofnun Íslands, ganga skrefið til baka eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Það kann ekki góðri lukku að stýra að mínu mati.

Það er rétt sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að í ársbyrjun 2012 hefur Náttúruminjasafn Íslands starfað í hátt fimm ár og er á byrjunarreit. Þetta er mjög slæmur dómur.

Nokkrar tillögur til lausnar eru tíndar fram. Númer eitt er að gera það sem við ætluðum, standa vel að þessu og byggja upp nýtt safn. Ég spyr: Hvar er þjóðarstoltið ef við gerum það ekki? Við erum alltaf að tala um hvað náttúran sé mikilvæg, við viljum sýna gripina okkar, viljum kenna um náttúruna. 70–80% af ferðamönnunum koma hingað til að skoða náttúruna og auðvitað þurfum við að búa vel að safninu.

Ef hins vegar á að breyta eru nefndar þrjár hugmyndir. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í þær. Ein er að taka skrefið til baka, leggja náttúruminjasafnshugmyndina niður og láta Náttúrufræðistofnun sjá um þetta. Ég held að hún sé ekki góð. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að við skulum ekki gera það. Hinar hugmyndirnar eru að sameina þetta í einhvers konar háskólastofnun eða taka upp einhverja gamla hugmynd um náttúrugripahús o.s.frv.

Ég held að við eigum ekki að ganga til baka. Við eigum að efla Náttúruminjasafnið, veita því brautargengi, klára að skera á hnútana milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafnsins og byggja upp nýtt safn með miklu stolti. Ég tel að það safn eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu þar sem það getur sinnt bæði fjölda nemenda og ferðamanna. Ég vil taka í útrétta hönd hæstv. ráðherra og lýsi mig reiðubúna (Forseti hringir.) að koma að einhvers konar nefndarstarfi, t.d. í allsherjar- og menntamálanefnd, (Forseti hringir.) til að auka líkurnar á að við getum litið fram á veginn bjartsýn með öflugra Náttúruminjasafn í framtíðinni en nú er.