140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[12:12]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að ræða þetta í þinginu í svona ágætu tómi. Við samþykktum í þinginu í fyrra ný safnalög. Mjög áhugaverð og vönduð vinna fór fram í þáverandi menntamálanefnd. Söfnin eru mikilvægur hluti af menntakerfinu okkar og menningarlífinu og ómissandi í ferðamennsku eins og hér hefur verið bent á.

Það felst vandi í orðinu „safn“ því að við notum orðið bæði yfir það sem kallast á erlendum málum „museum“ og svo það sem kallast „collection“. Mér finnst margir ekki gera mikinn greinarmun á þessum tveimur fyrirbærum þar sem við köllum hvort tveggja safn en hlutverkið getur verið gjörólíkt. Hlutverk höfuðsafnanna okkar þriggja og sú ábyrgð sem höfuðsöfnunum er falin er miklu meira og stærra verkefni en eingöngu söfnun, varðveisla og sýning sem í hugum margra er merking orðsins „safn“ en mundi aldrei flokkast sem „museum“ í öðrum löndum.

Söfnin hafa líka rannsóknarskyldu. Að mínu mati á sú rannsóknarskylda ekki bara að fara fram innan safnanna og hjá starfsfólkinu, heldur eiga söfnin einnig að vera opin fyrir aðra fræðimenn sem vilja rannsaka arfinn okkar. Það þarf að búa þeim nægilega góð skilyrði til rannsókna. Á þetta hefur mér þótt skorta í mínum fyrri störfum. Það er ekki alltaf sem mér hefur fundist ég velkomin á söfnin til að grúska.

Margir hafa farið ágætlega yfir málefni Náttúruminjasafnsins. Þau eru sérkapítuli út af fyrir sig og það er brýnt að taka ákvörðun um hvert við ætlum að stefna með það safn. Núverandi fyrirkomulag er algjörlega óásættanlegt, en ég held að við þurfum hreinlega aðra umræðu um það og gott að hún muni fara fram.

Eins og ráðherra minntist á áðan þrengir verulega að öðrum söfnum líka. Ég nefni sérstaklega Listasafn Íslands sem er vissulega í glæsilegri byggingu en allt of lítilli. Það er mín skoðun að við eigum alltaf að geta gengið inn í höfuðsafn íslenskrar myndlistar og skoðað gott yfirlit íslenskrar myndlistar frá öllum tímum, auk þess að skoða spennandi sérsýningar. Núverandi húsnæði Listasafns Íslands getur engan veginn sinnt þessari skyldu.

Eitt hús í miðbænum sem er núna í eigu ríkisins — þótt það hafi ekki verið það áður en nú á ríkið Landsbanka Íslands — hefur mér alltaf fundist tilvalið og mjög spennandi fyrir þann hluta Listasafns Íslands sem ætti að sýna okkur arfinn, ekki vera með spennandi nútímasýningar eða sérsýningar. Þessar höfuðstöðvar Landsbankans, nú í eigu ríkisins, er hús sem býður upp á ýmislegt, auk þess sem ómetanleg listaverk eru þar veggföst og hluti af húsinu, listaverk eftir einn af okkar helstu listamönnum, Jóhannes Kjarval. Þarna mundi ég vilja sjá framtíðarheimili Listasafns Íslands, a.m.k. annað af tveimur þótt núverandi húsnæði safnsins gæti nýst líka.

Ég vildi bara varpa þessari hugmynd fram í þessu samhengi. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa góðu umræðu og lýsi mig ávallt reiðubúna að koma að þessum málaflokki.