140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[12:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég heyri að það er í öllu falli mikill vilji til að koma að frekari samræðu um þessi mál og ég þakka kærlega fyrir það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið allt komi að málinu, taki þátt í næstu skrefum því að það er alveg ljóst að við stöndum á ákveðnum tímamótum eins og ég sagði áðan.

Mig langar að nefna nokkur atriði um stefnumótunina. Það er rétt, eins og kom fram hjá hv. þingmanni og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að drög að stefnu fyrir safnið voru send þann 21. janúar 2010 til Náttúruminjasafns en ekki náðist samstaða um þau drög. Það verður að hafa í huga að ekki hefur náðst samstaða milli ráðuneytisins og safnsins um stefnumótun fyrir safnið og ég hef litið svo á að það væri grundvallaratriði til að geta haldið áfram, til að mynda þegar kemur að húsnæðismálum. Hversu mikla áherslu á að leggja á rannsóknaþáttinn og hvernig á að útfæra hann, hvernig viljum við sjá miðlun safnsins skipulagða o.s.frv.? Það getum við rætt betur síðar en þetta er eitt af því sem hefur hreinlega ekki náðst samstaða um, svo það sé sagt.

Hið sama má segja um þá togstreitu sem hér hefur verið nefnd milli Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafnsins um þá gripi sem ætlunin var með lögunum að yrðu til sýnis og að Náttúruminjasafnið yrði á forræði Náttúrufræðistofnunar, getum við sagt. Þar hefur heldur ekki náðst samstaða. Það hefur verið haldinn fundur forstöðumanna þessara tveggja stofnana en ekki náðst samstaða þannig að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að höggva á þessa hnúta. Ég held að það sé mjög gott að þingið taki þátt í því.

Það er jákvætt að heyra, og ég tek undir það eins og ég sagði áðan, að aðsókn að söfnum er mikil, þau eru mörg hver að gera spennandi hluti. Ég var í hópi þeirra 600 sem mættu á opnunina á Þjóðminjasafninu, hugsaði einmitt að mér liði eins og ég væri á 17. júní og fannst alveg frábært að sjá þennan mikla áhuga.

Hvað varðar Listasafn Íslands get ég tekið undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, en ég vil segja að eftir að Þjóðmenningarhúsið, þ.e. Safnahúsið við Hverfisgötu, var fært yfir til mennta- og menningarmálaráðuneytis er hugmyndin sú, eftir að hafa skoðað það húsnæði sem er friðað, að það húsnæði henti mjög vel til að setja þar upp í áföngum grunnsýningu á íslenskri myndlist. Hún væri þá í samvinnu Þjóðminjasafnsins sem geymir mörg myndverk frá fyrri tíð og Listasafnsins þannig að almenningur á bráðlega að geta gengið þar inn og horft á þetta yfirlit. Fyrsti áfangi var opnaður í fyrra og við ætlum að opna þessa sýningu í áföngum þannig að frá og með hæsta ári verði þarna yfirlitssýning á íslenskri myndlist.

Við mátum það ekki vænlegan kost fyrir nútímalegt náttúruminjasafn sem ætti að höfða til skólanna og ferðamanna að vera í þessu friðaða húsi.

Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, við þurfum að horfa í kringum okkur. Hugsanlega eru einhverjir möguleikar í húsnæðismálum til lengri tíma sem þarf bara að skoða. Næstu skref eftir þetta eru að fara nánar yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég fer kannski betur í þau atriði í þeirri sérstöku umræðu sem hér hefur verið boðuð. Ég vænti þess að fá að kalla hv. allsherjar- og menntamálanefnd til samráðs um framhaldið. Ég held að það standi dálítið upp á okkur að leyfa okkur aðeins að hugsa út fyrir rammann. Við stöndum á þeim stað að ég held að það sé allt í lagi. Síðan verðum við þá að leggja stefnuna þannig að þingið sé þá einhuga í því hvernig það ætlar að vinna að málinu, bæði hvað varðar stefnumótun og fjárframlög til lengri tíma.

Að lokum þakka ég fyrir umræðuna. Ég veit núna að það er að minnsta kosti mikill hugur í mönnum að leysa þessi mál.