140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að biðja um þessa umræðu. Hún gefur mér kærkomið tækifæri til að ræða stöðuna í atvinnumálum og aðgerðir ríkisstjórnarinnar fyrr og nú í þessu efni. Ég held að það sé alveg ljóst að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í málefnum atvinnulífsins og umhverfis þess hefur aldrei verið umfangsmeiri en nú. Við viljum að atvinnuuppbygging hvíli á mörgum stoðum en ekki bara stórvirkjun eða einni stóriðju eins og lenska hefur verið um langt skeið. Við erum að reisa þær stoðir sem standa munu undir góðum lífskjörum; græna hagkerfið, skapandi greinar, Ísland 20/20, þróttmikil ferðaþjónusta og gjöfult umhverfi sprotafyrirtækja, svo fátt eitt sé nefnt. Ég nefni líka stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um erlendar fjárfestingar sem lögð var fyrir Alþingi í desember. Við erum að leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi sem skapar störf fyrir okkar unga fólk þar sem menntun þess og færni nýtur sín. Þannig tryggjum við að unga fólkið okkar vilji búa hér til framtíðar.

Áætlanir okkar um fjárfestingar taka í senn til opinberra og hálfopinberra fjárfestingarverkefna og til orku- og stóriðjuverkefna. Í kjarasamningum frá því í vor settu aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld fram sameiginlegt markmið um að auka fjárfestingar þannig að hlutföll þeirra af landsframleiðslu hækki úr 13% árið 2010 í 20% árið 2013. Þetta hlutfall hækkaði í 14% árið 2011 og stefnir í 16% á þessu ári. Horfur um fjárfestingar eru um margt bjartar og þetta markmið, 20%, er ekki fjarlægt. Ég nefni sérstaklega horfur fram undan um uppbyggingu orkumannvirkja og iðnaðar þeim tengdum. Miklar framkvæmdir eru þegar í gangi hjá orkufyrirtækjum við Búðarháls, á norðaustursvæðinu og á suðvesturhorninu og enn frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar á þessu ári og næsta ári á Reykjanesi, í Þingeyjarsýslum og í Hverahlíð.

Á annan tug fjárfestingarsamninga eru nú til skoðunar eða hafa þegar verið undirritaðir og eru að koma til framkvæmda. Umfang þessara verkefna gæti slagað í hátt í 200 milljarða kr. kæmu þau öll til framkvæmda á næstu árum. Ýmsar aðgerðir og stórverkefni á vettvangi hins opinbera munu ekki síður á næstu tveimur til þremur árum skapa þúsundir starfa um allt land. Á næstu tveimur árum gæti umfang þessara framkvæmda verið um 50–60 milljarðar kr.

Ráðist hefur verið í aðgerðir til að virkja atvinnulausa til náms og virkni á vinnumarkaði sem hafa nýst þúsundum einstaklinga. Nýjar aðgerðir fara af stað á næstu vikum og miða að því að skapa vinnu fyrir langtímaatvinnulausa sem eru að missa bótarétt sinn. Því er haldið á lofti að fólki á vinnumarkaði hafi fækkað í fyrra, eins og hv. þingmaður gerði. Á þessu er augljós skýring, sú að atvinnulausum hefur fækkað og fjöldi starfandi fólks staðið í stað. Vinnumagnið hefur hins vegar aukist þar sem fólki í fullu starfi hefur fjölgað mikið og fólki í hlutastarfi fækkað. Að hluta má rekja fækkun atvinnulausra í könnun Hagstofunnar til þess að atvinnulausir leita í auknum mæli í nám í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsaðgerðum. Á þessu er því eðlileg skýring.

Þá eru skýr teikn á lofti um að úr landflótta sé að draga. Til marks um það er að árið 2009 voru brottfluttir umfram aðflutta 4.800 og þeim fækkaði í 1.400 árið 2011. Þá nefni ég að á síðasta fjórðungi 2010 voru brottfluttir umfram aðflutta 440 en aðeins 70 á sama tíma í fyrra, þar af 15 íslenskir ríkisborgarar.

Þrátt fyrir allan bölmóðinn og brigslyrðin um að hér sé ekkert að gerast verður ekki fram hjá því horft að hagvöxtur á síðasta ári var á milli 3 og 4%, þ.e. nærri tvöfalt meira en meðal OECD-ríkjanna. Horfurnar eru bjartar, sjávarútvegurinn er í sókn, þorskkvótinn var aukinn um 17 þús. tonn á þessu fiskveiðiári. Góðar horfur eru einnig um veiðar á makríl, síld og loðnu. Ferðaþjónustan er áfram í mikilli sókn og allt þetta bendir til að gjaldeyrisöflun í þjóðarbúskapnum muni glæðast verulega. Það er því margt sem bendir til að fyrirliggjandi spá um hagvöxt og fjárfestingu á þessu ári sé í lægri kantinum og að hagvöxtur verði meiri en 3% á þessu ári, 2012.

Hv. þingmaður spyr um rammaáætlun. Vonir standa til að hún verði lögð fyrir Alþingi mjög fljótlega, verið er að leggja lokahönd á hana af hálfu stjórnarflokkanna og ég vonast til að hún sjái dagsins ljós á næstu dögum.

Það er full ástæða til bjartsýni enda hefur væntingavísitalan hækkað um 22% á undanförnum 12 mánuðum og hefur vísitalan ekki verið hærri síðan á sumarmánuðum, virðulegi þingmaður, 2008. Væntingavísitalan (Forseti hringir.) hefur ekki verið hærri síðan á sumarmánuðum árið 2008. Fólkið í landinu sér sem sagt að við erum á (BJJ: Það styttist í kosningar.) réttri leið.