140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér á að vera um stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Ég verð þó að segja til að byrja með að það er dæmalaust að hlusta á hv. þm. Jón Gunnarsson fara með bölsýnisræðu sína dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og bráðum ár eftir ár um að hér sé ekkert að gerast og allt að fara fjandans til. Það fór allt fjandans til, hv. þm. Jón Gunnarsson. Svo heldur hann því blákalt fram að þúsundir (Gripið fram í.) starfa, þúsundir á þúsundir ofan, séu að tapast þegar staðreyndirnar eru aðrar. Menn eiga bara að afla sér gagna í stað þess að bulla í þessum ræðustól út í eitt daginn út og daginn inn. Það (Gripið fram í.) er einfaldlega ekki þannig. Hvar er fjárfestingin í landinu að aukast? Hún er í sjávarútvegi. Hún er í stóriðju. Hún er í flugvélaiðnaðinum. Þar hefur fjárfestingin aukist um 6–8% á undanförnum mánuðum. Þetta getur hv. þingmaður kynnt sér ef hann hefur burði til (Gripið fram í.) þess og hefur áhuga á því (Gripið fram í.) að fara með staðreyndir úr þessum ræðustól (Gripið fram í.) sem ég reyndar efast um að hann hafi.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, upphafsmanni þessarar umræðu, um að hér séu allar forsendur til að skapa fyrirmyndarsamfélag. Það eru ótal tækifæri, rétt eins og hv. þingmaður nefndi réttilega í ræðu sinn áðan, sem þessi þjóð hefur umfram margar aðrar þjóðir. Þau tækifæri eigum við að nýta okkur og um leið læra af mistökum fortíðar, læra af því hvernig við glutruðum hluta af þeim tækifærum, jafnvel mörgum hverjum í sama iðnaði, í aðdraganda hrunsins og marga áratugi þar á undan. Hvað getum við lært af því sem við gerðum rangt þá og hvernig getum við byggt upp það fyrirmyndarþjóðfélag sem ég held að við hv. þm. Birkir Jón Jónsson séum sammála um að eigi að vera tiltölulega auðvelt (Forseti hringir.) að byggja hér upp?