140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:54]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Nú koma menn hingað og tala um helstefnu ríkisstjórnarinnar. Fyrir nokkrum dögum (Gripið fram í.) töluðu menn í viðskiptalífinu á ráðstefnum úti í bæ um galdrabrennur ríkisstjórnarinnar vegna leiðréttinga í sköttum sem voru gerðar til að reyna að færa skattkerfið á Íslandi til samanburðar við það sem gerist í öðrum vestrænum ríkjum. Nú tala menn um helstefnu. Hverjir eru það, virðulegi forseti, sem arka upp í þennan ræðustól Alþingis í byrjun árs 2012 (Gripið fram í.) og ræða um helstefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum? (PHB: … Þorbirni.) Við erum að glíma við fortíðina, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem glottir hér út í annað yfir því að hafa skilað okkur 15 þús. atvinnulausum Íslendingum (PHB: Farðu nú að …) sem þessi ríkisstjórn fékk í arf frá þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. Pétur Blöndal [Kliður í þingsal.] studdi svo vel og við erum að berjast við að draga úr. (PHB: Og tekst ekki.) Það er það sem verið er að fást við hér í dag. Það er rétt að það komi fram að ég sé að hv. þm. Pétri H. Blöndal er skemmt yfir þeim tölum sem ég er að lesa yfir honum.

Við erum þó ekki að glíma við þær tölur sem þessi ríkisstjórn tók (Gripið fram í.) í arf á þeim tíma. Við höfum náð árangri, við höfum fækkað hér atvinnulausum um mörg þúsund. (Gripið fram í.) Við náðum ekki eingöngu að stöðva fallið sem var í atvinnulífinu á Íslandi, heldur höfum við náð að snúa því við. Um það eru öll merki, alveg sama hverju menn halda fram. Ef menn ætla á annað borð að reyna að vera sanngjarnir í umræðunni skulu þeir gera það, að öðru leyti eru þeir ekki marktækir í því sem hér er um að ræða.

Þetta er grafalvarlegt mál. Menn segja að sjávarútvegurinn sé í það mikilli óvissu að hann viti ekki hvað hann eigi að gera. Sú óvissa er búin að vera í aldarfjórðung, það er verið að leysa þá óvissu. Ef menn ætla að halda því fram að það hafi verið sköpuð óvissa í sjávarútvegi á undanförnu einu (Forseti hringir.) til tveimur árum sem valdi því að þúsundir starfa hafi glatast spyr ég: Hvers konar málflutningur er þetta, (Forseti hringir.) virðulegur forseti?