140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég legg fram til umræðu skýrslu um orkuskipti í samgöngum, sem er mál nr. 377 á þskj. 453, sem nýverið var dreift til hv. þingmanna. Skýrsla þessi hefur að geyma stefnumótun, markmiðasetningu og aðgerðaáætlun sem ráðherra bar að leggja fyrir Alþingi fyrir 1. janúar 2012 í samræmi við þingsályktun um orkuskipti í samgöngum sem samþykkt var á Alþingi 7. júní 2011. Því miður tókst ekki að koma skýrslunni á dagskrá þingsins fyrir þann tíma og er því mælt fyrir henni nú.

Orkuskipti felast í því að hætta að mestu notkun jarðefnaeldsneytis og að nýta aðra og umhverfisvænni orkugjafa í staðinn, svo sem vatnsorku, jarðhita, vind- og sólarorku, metan og lífdísil. Við Íslendingar höfum áður gengið í gegnum orkuskipti, það var þegar landið var hitaveituvætt og olíu- og kolakynding var aflögð að mestu og reyndist það mikið heillaskref. Við erum í þeirri öfundsverðu stöðu að nær öll orka til rafmagnsframleiðslu og húshitunar kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum en þegar kemur að orkunotkun okkar hvað varðar samgöngutæki á landi og sjó blasir við önnur mynd.

Heildstæð orkustefna fyrir Ísland gerir það að meginmarkmiði sínu að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, annars vegar með orkusparnaði og hins vegar með orkuskiptum. Hægt er að ná töluverðum árangri til skamms tíma með orkusparnaði og er ör þróun þar, til dæmis með sparneytnari bílum, en með orkuskiptum er horft til lengri tíma.

Ríflega 70% af því jarðeldsneyti sem notað er á Íslandi fara í það að knýja áfram hvers kyns ökutæki og skipaflotann. Afgangurinn skiptist á milli flugsamgangna, sem nota 18% olíunnar, og byggingariðnaðar og annars konar iðnaðar, sem notar samtals rúm 10%.

Árið 2010 var gjaldeyrir að andvirði 44 milljarða kr. notaður til innflutnings á jarðefnaeldsneyti, bensíni, gasolíu og brennsluolíu. Það er því til mikils að vinna í þjóðhagslegum sparnaði ef hægt væri að nota innlenda endurnýjanlega orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis.

Hæstv. forseti. Iðnaðarráðherra kom á fót sérstakri verkefnastjórn um orkuskipti í samgöngum til að vinna að mótun stefnu stjórnvalda. Verkefnisstjórnin fékk nafnið Græna orkan og er hún skipuð breiðri fylkingu fólks úr stjórnkerfinu og atvinnulífinu. Í henni eiga sæti fulltrúar úr fjármála-, iðnaðar-, umhverfis- og innanríkisráðuneyti ásamt aðilum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandinu og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Það er mér sérstakt fagnaðarefni að náðst hefur að móta heildstæða stefnu sem rúmar hagsmuni ólíkra hópa.

Það er afar margt um að vera í þróun á nýjum orkugjöfum fyrir samgöngutæki. Margir mögulegir orkugjafar eru kynntir til sögunnar en markaðurinn hefur enn ekki gert upp við sig á hvaða hesta hann ætlar að veðja. Það er hins vegar ekki hlutverk stjórnvalda að ákveða hvaða tæknilausnir verði ofan á í orkuskiptum, hlutverk stjórnvalda er miklu frekar að móta heildarrammann og skapa hagfellt umhverfi. Græna orkan gegnir þar mikilsverðu hlutverki, að vera augu og eyru stjórnvalda hvað það varðar.

Í skýrslu Grænu orkunnar um orkuskipti í samgöngum sem lögð er fram er komið víða við og er ekki minnst um vert að í henni er sett fram tímasett aðgerðaáætlun í tengslum við orkuskipti í samgöngum á landi og sjó. Skýrslan er í senn upplýsingabrunnur um lykilþætti varðandi orkuskiptin en um leið vegvísir fyrir hvaða leið við eigum að fylgja inn í framtíðina. Í skýrslunni er fjallað um skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi og tekin er saman innlend stefnumótun sem varðar orkuskiptin. Með innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa mun Ísland setja sér bindandi markmið um 10% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020. Innlend stefnumótun er samhljóða þessu markmiði og hana er meðal annars að finna í nýútgefinni orkustefnu fyrir Ísland og stefnuskjalinu Ísland 20/20.

Í skýrslunni er jafnframt ítarleg greinargerð um stöðu orkuskipta hér á landi og þeim orkugjöfum sem nýtast fyrir orkuskipti ökutækja og skipa. Innviðir fyrir orkuskipti eru greindir og tillögur lagðar fram um hvernig staðið skuli að frekari uppbyggingu þeirra. Þá er í skýrslunni fjallað um mikilvægi aukinnar samvinnu allra þeirra sem að þróunarverkefnum koma á þessu sviði og er áhersla lögð á að hið opinbera sýni gott fordæmi, til dæmis með því að setja fram stefnu um innkaup sem styður við orkuskiptin. Að lokum er hugað að því á hvaða formi uppbyggingu orkuskipta hér á landi sé best fyrir komið og lögð fram tillaga varðandi framhald Grænu orkunnar með breyttu sniði.

Í skýrslunni er jafnframt sett fram tímasett aðgerðaáætlun með skilgreindum ábyrgðaraðilum og árangursmælikvörðum. Aðgerðirnar spanna allan feril orkuskiptanna frá framleiðslu til dreifingar og allt til endanotenda. Núverandi laga- og skattumhverfi er greint í skýrslunni og settar eru fram tillögur og hugmyndir í skattamálum sem hvetja eiga til orkuskipta, til að mynda endurgreiðslur á virðisaukaskatti fyrir hreinorkubíla, sem teljast þeir bílar sem losa engar gróðurhúsalofttegundir. Fjallað er um nýsköpun, rannsóknir og menntamál ásamt því að settar eru fram tillögur um uppbyggingu stuðningsumhverfis og -sjóða. Með auknum fjölda hreinorkubíla er fyrirséð að tekjur ríkissjóðs sem renna eiga í vegagerð og viðhald á vegum munu minnka. Því eru lagðar fram tillögur í skýrslunni um að skipulagður verði samstarfshópur allra hagsmunaaðila sem vinni tillögur um útfærslur nýrra gjaldaleiða.

Hæstv. forseti. Sem fyrr segir er staða Íslands öfundsverð hvað varðar nýtingu endurnýjanlegra orkulinda fyrir rafmagnsframleiðslu og húshitun. Við höfum nú þegar náð markmiðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun, en þegar kemur að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur varðandi samgöngur kárnar gamanið. Staðan nú er sú að orkuskiptin eru varla byrjuð að taka á sig mynd hér á landi þar sem einungis um 0,35% ökutækja falla undir skilgreiningu um vistvæn ökutæki. Markmið um 10% hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum er því krefjandi og ég minni á að við höfum aðeins átta ár til stefnu, þ.e. til ársins 2020. Að mati Grænu orkunnar eru ýmis ljón í veginum sem hægt gætu á orkuskiptunum og má í því sambandi nefna hátt verð vistvænna ökutækja, hæga endurnýjun bílaflotans, skort á innviðum og óvissu um hvaða orkugjafar verði helst fyrir valinu.

Það er því mikilvægt að stjórnvöld styðji vel við þróunina á fyrstu stigum orkuskiptanna. Liður í því er að tryggja að tímabil ívilnana verði að minnsta kosti til ákveðins skilgreinds tíma svo dregið sé úr óvissu þeirra sem taka þátt í uppbyggingu orkuskipta. Því er lögð fram tillaga um að gildandi ívilnanir á sviði orkuskipta komi ekki til endurskoðunar fyrr en í fyrsta lagi árið 2020.

Með skýrslu um orkuskipti í samgöngum sem ég hef nú mælt fyrir og þeirri aðgerðaáætlun sem þar er að finna er stigið stórt skref með stefnumótun á sviði orkuskipta hér á landi. Alþingi Íslendinga sýndi hug sinn til orkuskipta í samgöngum síðastliðið vor, leiðin er vörðuð. Ég treysti á áframhaldandi stuðning hv. þingmanna nú þegar við erum lögð af stað í leiðangurinn.