140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir góðar og málefnalega umræður um það mikilvæga mál sem orkuskipti í samgöngum sannarlega er.

Í júní síðastliðnum var breið samstaða meðal hv. þingmanna um þingsályktun þar sem kúrsinn var settur. Nú er að renna upp tími athafna og framkvæmda. Í skýrslunni sem við höfum verið að ræða eru lögð fram drög að aðgerðaáætlun eins og fram hefur komið í umræðunni í dag. Verkefnið fram undan er stórt og krefjandi og kallar á breiða samvinnu ótal aðila sem spannar nánast öll svið þjóðfélagsins, svo sem frá stjórnkerfinu, sveitarfélögum, fyrirtækjum í ótal atvinnugreinum, háskólum og öðrum hagsmunaaðilum. Við orkuskiptin minnkum við og drögum úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýtum í staðinn aðra og umhverfisvænni orkugjafa; vatnsorku, jarðhita, vind- og sólarorku, metan og lífdísil.

Við búum að einstakri reynslu sem þjóð þegar kemur að orkuskiptum þegar við skiptum út kola- og olíukyndingu fyrir hitaveitu í borgum og bæjum. Ég held að við getum seint fullþakkað þeim sem höfðu veg og vanda af þeirri byltingu. Það er eitt af meginmarkmiðum orkustefnu fyrir Ísland að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis með orkusparandi aðgerðum og orkuskiptum. Árangurinn sem að er stefnt er að árið 2020 séu 20 þús. bílar á Íslandi knúnir áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Til að ná því þarf samstillt átak.

Við gerð skýrslunnar var mynduð breiðfylking aðila úr stjórnkerfinu auk fulltrúa helstu hagsmunaaðila úr einkageiranum. Í skýrslunni er ekki tekið á hvaða tæknilausnir eða orkugjafar verða ofan á heldur var leitast við að móta heildarramma og skapa hagfellt umhverfi.

Hæstv. forseti. Skuldbindingar okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi og innlend stefnumótun kveða á um 10% hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020. Í skýrslunni eru jafnframt settar fram tillögur og hugmyndir í skattamálum sem eiga að hvetja til orkuskipta. Þær þarf að skoða og meta. Einnig þarf að kanna og útfæra nýjar leiðir til gjaldtöku á ökutæki til vegaframkvæmda. Að auki er að finna tillögur um uppbyggingu sjóða og stuðningsumhverfi fyrir orkuskipti.

Í dag er staðan þannig að um 0,4% ökutækja falla undir skilgreininguna vistvæn ökutæki. Markmiðið um 10% hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020 er því krefjandi og krefst aðgerða strax þar sem aðeins átta ár eru til stefnu. Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld styðji með einhverjum hætti þróunina á fyrstu stigum orkuskiptanna. Hv. þingmenn sýndu skilning á mikilvægi málsins síðasta vor þegar þingsályktun um orkuskiptin var samþykkt einróma.

Verkefnið fram undan krefst breiðrar samstöðu allra þeirra sem að því koma. Það er von mín að hér í dag séum við að stíga stórt skref með þeirri skýrslu sem nú er fylgt úr hlaði. Í framhaldinu mun vinnan hefjast af fullum þunga við orkuskiptin. Ég treysti því á áframhaldandi stuðning hv. þingmanna við þetta mikilvæga mál.