140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi.

30. mál
[15:01]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi. Þetta er tillaga lögð fram af 21 þingmanni úr öllum flokkum á þingi og vil ég byrja á að þakka þann mikla áhuga sem þingheimur hefur sýnt þessu máli og fagna því að það sé nú komið á dagskrá. Tillagan var fyrst lögð fram fyrir réttu ári, á vorþingi 2011, en fékkst þá ekki rædd og var lögð fram að nýju í októbermánuði sl.

Tillagan er í sjálfu sér einföld, felur í sér að iðnaðarráðherra verði falið að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands, með áherslu á greiningu nýtingarkosta á þeim svæðum landsins sem ætla má að uppfylli hagkvæmnikröfur, jafnframt því að byggja upp gagnagrunn sem almenningur og atvinnulífið hefði aðgang að um nýtingu sjávarorku og stuðla að framgangi tækniþróunar á þessu sviði. Loks yrði kannað í þessari vinnu með hvaða hætti Ísland gæti orðið aðili að alþjóðlegu samstarfi um nýtingu sjávarorku.

Það er augljóst að hér er um framtíðarmúsík að ræða, en þó er greinilegt þegar litið er til reynslu annarra þjóða að rannsóknum og þróun á þessu sviði varðandi nýtingu sjávarorku fleygir nú mjög hratt fram. Það helst í hendur við aukinn áhuga og auknar fjárfestingar í endurnýjanlegri orku en þar er breytingin tröllaukin milli ára. Fjárfesting í nýtingu á endurnýjanlegri orku hefur aldrei meiri en árið 2010 sem við höfum nýjustu tölur um, yfir 211 milljarða bandaríkjadala, og jókst umfang þessarar fjárfestingar í grænni orku um þriðjung á milli ára.

Vindvirkjun var einungis stunduð í örfáum ríkjum árið 1990 en er núna stunduð í 83 ríkjum. Sólarorkuframleiðsla er stunduð í fleiri en 100 ríkjum. Á heimsvísu hafa nú þegar skapast yfir 3,5 milljónir beinna starfa við endurnýjanlegan orkuiðnað og um helmingur þeirra er við lífrænt eldsneyti. Sjávarorkuframleiðsla er núna í þróun í meira en 25 ríkjum og þar varð veruleg framþróun árið 2010. Þrjú ríki eru fremst í flokki hvað þetta varðar, Bretland, Kanada og Bandaríkin, en önnur fylgja fast á eftir. Það er athyglisvert þegar skoðaðar eru samanburðartölur frá öðrum ríkjum að víða í löndunum í kringum okkur er farin af stað opinber stefnumótun á þessu sviði. Bretar og Írar standa þar framarlega í flokki og í Bretlandi vex sjávarorkugeirinn mjög hratt. Hann skapar núna um 800 heil störf, en markmið Breta er að árið 2035 sjái sjávarorkugeirinn fyrir tæpum 20 þús. störfum þar í landi.

Í Danmörku hefur ríkisstjórnin markað sér stefnu um að sjávarorkuvinnsla verði orðin 500 megavött að umfangi í lok þessa áratugar. Spánverjar eru með markmið um 100 megavött árið 2020 og í Þýskalandi er núna unnið að undirbúningi stefnumótunar á þessu sviði. Í Bandaríkjunum jók Obama-ríkisstjórnin á síðasta ári verulega fjármagn til þróunar og nýtingar sjávar- og vatnsorku og hefur mörgum tugum verkefna verið ýtt úr vör í því skyni.

Hér við land hafa litlar rannsóknir farið fram á hafstraumum og þar með sjávarorku við strendur utan fjarða á þeim stöðum þar sem straumar eru stríðir, svo sem í röstum undan annesjum. Jafnframt hefur ekki verið mörkuð stefna um slíkar rannsóknir til að meta umfangið, orkumagnið eða nýtingarmöguleika. Vissulega má segja að við Íslendingar höfum haft næga orku fram að þessu frá vatnsföllum og jarðvarma og hins vegar er rétt að hingað til hefur tækni verið af skornum skammti til að stunda áreiðanlegar rannsóknir á þessu sviði. Hvort tveggja kann þó að vera að breytast og það er alveg ljóst af umræðunni í þessum sal og í tengslum við rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða sem og af stefnumótun Landsvirkjunar að sá skilningur er smátt og smátt að ryðja sér til rúms að sá orkuforði sem við eigum í vatnsföllum og jarðvarma sé takmarkaður og það sé bæði skynsamlegt út frá náttúruverndarsjónarmiðum og efnahagslegum að horfa til fleiri orkukosta í framtíðinni, ekki síst þeirra sem hafa lítil þekkt umhverfisáhrif. Í þessu sambandi líta margar þjóðir núna til vindorkunnar, en sjávarorkan er sömuleiðis svið sem eðlilegt er að rannsaka mun betur en gert hefur verið.

Nú vil ég slá þann varnagla að við getum alls ekki fullyrt hér í dag að virkjun sjávarorku geti orðið ein af burðugustu atvinnugreinum á Íslandi í náinni framtíð. Við höfum einfaldlega ekki til þess nægilega traustar upplýsingar en með hliðsjón af reynslu annarra þjóða er full ástæða til að kanna, og það rækilega, hverjir hagkvæmustu nýtingarkostir sjávarorku við Íslandsstrendur eru og móta í leiðinni stefnu um hvernig efla megi rannsóknir og þróun á þessu sviði.

Það er athyglisvert að líta til reynslu þjóða eins og Íra. Þar liggur fyrir tölfræði um að heildarorka sjávarfallastrauma við Írland sé áætluð 230 teravattstundir sem er nálægt því að vera tvöfalt það heildarumfang sem mælt hefur verið fyrir vatnsafl og jarðvarma hér á landi. Það er ekki hægt að fullyrða að aðstæður við Ísland séu sambærilegar við Írland hvað þetta varðar en þó er hægt að nefna að Írland er einungis 70% af flatarmáli Íslands sem rennir stoðum undir þá skoðun að virkjun sjávarorku gæti orðið framtíðargrein sem um munar í orkubúskap Íslendinga.

Í greinargerð þessarar tillögu er fjallað um mikilvægi samstarfs opinberra aðila og einkaaðila um stofnun rannsóknamiðstöðvar sjávarorku um uppbyggingu gagnagrunns um sjávarorku til almennra nota, stuðning við tækniþróun og mikilvægi alþjóðasamstarfs á sviði nýtingar sjávarorku. Ég tel að nýting sjávarorku hefði margvíslega þýðingu fyrir Íslendinga. Með henni fengist aðgangur að mjög stöðugri og öflugri orkulind sem unnt væri að nýta án umtalsverðra þekktra umhverfisáhrifa og ætti því ekki að valda sambærilegum ágreiningi og deilum og til dæmis virkjanir á vatnsafli. Þessi nýting mundi hafa þýðingu varðandi orkuöryggi þar sem orkuna er víða að finna við svæði sem hingað til hafa búið við mikið óöryggi í orkuframboði.

Rétt er að taka fram að enn hafa ekki komið fram óyggjandi vísbendingar um að virkjun sjávarfalla fullnægi almennt þeim kröfum sem gerðar eru um hagkvæmni og arðsemi. Hins vegar eru líkur á því að sjávarfallavirkjanir gætu verið hagkvæmar við tilteknar aðstæður. Slíkar aðstæður er til að mynda að finna í mynni Hvammsfjarðar þar sem fallastraumar eru miklir og hafa verið veitt rannsóknarleyfi vegna hugsanlegrar nýtingar þar. Á Vestfjörðum og hugsanlega fleiri stöðum á landinu þar sem afhendingaröryggi raforku er takmarkað gæti staðbundin raforkuframleiðsla komið í stað framkvæmda við að styrkja og/eða tvöfalda flutningslínur til meginlandsins. Framkvæmdir við vegagerð og þverun fjarða gætu nýst sem hluti fjárfestingar í sjávarfallavirkjun.

Aðalatriði þessa máls er að hér er viðleitni til að fjölga stoðum í atvinnulífi framtíðarinnar, draga úr einhæfni þess og fjölga valkostum í orkubúskap okkar. Það er rétt að vara við öllum stórveldisdraumum í þessu samhengi. Það er ekkert tilefni til þess að lofa stórkostlegri uppbyggingu í virkjunum sjávarorku á allra næstu árum, en fullt tilefni hins vegar til að efla rannsóknir á þessu sviði og hefja markvissa skoðun á því hvar á landinu líkur eru á að hægt væri að virkja þessa auðlind með hagkvæmum og arðbærum hætti. Það er markmið þessarar tillögu sem ég vona að fái vandaða málsmeðferð í þinginu og að því loknu jákvæða meðhöndlun hér í þingsalnum.

Að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að tillögunni verði vísað til hv. atvinnuveganefndar þingsins.