140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

félagsleg aðstoð.

50. mál
[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu fyrir málinu og honum og meðflutningsmönnum hans fyrir að setja það á dagskrá þó að ég átti mig ekki á því á þessu stigi hvaða afstöðu sé rétt að taka til málsins. Þegar gert er ráð fyrir því að greiðslur vegna fötlunar eða hreyfihömlunar renni ekki til hins fatlaða sjálfs eða þess hreyfihamlaða þá er auðvitað alveg sérstök ástæða til að fara vel og vandlega yfir það vegna þess að bæði löggjöf okkar og alþjóðlegir sáttmálar allir gera fyrst og síðast ráð fyrir því að það sé hinn fatlaði eða hreyfihamlaði sjálfur sem hafi um það að segja með hvaða hætti fjármunum vegna hans sé varið. Við mál af þessu tagi hljóta að vakna ákveðnar spurningar eins og hvort foreldrar eigi almennt að fá stuðning hins opinbera til kaupa eða reksturs bifreiða vegna þess að þeir noti bifreiðarnar til að aðstoða börnin sín sem búa annars staðar og hugsanlega til að sinna sérþörfum þeirra. Það kann að vera. Ég held að það sé mikilvægt að velferðarnefnd fari yfir þessi einstöku dæmi sem hv. þingmenn vísa til og kanni þau efnislegu rök sem þar liggja að baki.

Um leið getur verið full ástæða fyrir hv. velferðarnefnd að fara yfir bifreiðastyrkjamálin almennt vegna þess að í áranna rás held ég að menn hafi aðeins misst sjónar á því hvernig til þeirra var stofnað upphaflega. Ég held að það megi ræða hvort fyrirkomulag þessara styrkja og umfang þeirra raunar sé ekki óheppilegt, þ.e. umgjörðin, og umfangið heldur rýrt miðað við þarfir. Upphaflega fólu styrkirnir í sér niðurfellingar á mjög háum gjöldum hins opinbera á stærri og aflmeiri bifreiðar. Röksemdirnar á bak við það voru þær að hreyfihamlaðir þyrftu á stærri og aflmeiri bílum að halda, þeir gætu ekki keypt ódýrustu valkostina, þeir væru oft tekjulágir og þess vegna ætti ríkið ekki að heimta lúxusskatta af þeim bifreiðum sem hreyfihamlaðir keyptu heldur ætti ríkið að falla frá gjaldtöku sinni á þá stóru og dýru bíla sem þessi hópur þyrfti til að komast um.

Á einhverju stigi málsins þótti það ekki pólitískt rétt að fella niður gjöld. Þá var haldið áfram að heimta full gjöld af þessum bifreiðum, en styrkir veittir á móti. Þeir styrkir hafa alls ekki fylgt þeirri verðlags- og fjöldaþróun sem orðið hefur síðan og eru orðnir of fáir, of rýrir og gefa einfaldlega ekki þann stuðning í þessu efni sem mikilvægur er. En stuðningurinn er gríðarlega mikilvægur, sérstaklega fyrir þá sem búa við mikla hreyfihömlun vegna þess að þetta er í raun spurning um ferðafrelsi fyrir fjöldann allan af fólki og um leið auðvitað spurning um öryggi og lífsgæði.

Upphaflega sjónarmiðið var að ríkið yrði ekki af neinum tekjum vegna þess að hreyfihamlaðir öryrkjar væru með fremur lágar tekjur og því ekki í færum til að kaupa þessar bifreiðar ef hinir háu skattar ríkisins væru heimtir að fullu af þeim. Þess vegna þjónaði það ekki tilgangi, hvorki fyrir ríkið né fyrir viðkomandi einstaklinga, að taka lúxusskatta af nauðsynjatækjum fyrir hreyfihamlað fólk eins og sæmilega rúmgóðir og öflugir bílar eru.

Ég held að full ástæða sé til að fara yfir þetta málasvið allt í hv. velferðarnefnd, líka vegna þess að fyrir hrun, í góðærinu miðju, voru þessir styrkir skornir niður enn frekar og fötluðum gert að eiga bifreiðar sínar lengur en áður, þ.e. þeim árum var fjölgað sem liðu milli þess sem menn áttu rétt á styrkjum. Raunar var svo ósmekklega að því staðið að það var gert í sama mund og samþykkt var að hraða endurnýjun á embættisbifreiðum Stjórnarráðsins, þ.e. ráðherrabílunum, sem þurftu að vera nýrri og flottari en þeir voru. Það lýsti kannski nokkuð því gildismati sem var hér allsráðandi þegar við töldum okkur vera sem efnuðust.

Ég vildi bara hreyfa við þessum atriðum í tengslum við málið. Þegar ég skoða listann yfir flutningsmenn þessa máls tel ég fulla ástæðu til að ætla að skýr og efnisleg dæmi séu um aðstæður þar sem sá fatlaði njóti stuðnings í akstursmálum frá einhverjum sem ekki deili með honum lögheimili og við þær aðstæður gæti verið þörf á þessu úrræði. Ég vona að málið fái góða og efnislega umfjöllun í hv. velferðarnefnd og ég ítreka þakkir til flutningsmannanna fyrir framtakið.