140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

félagsleg aðstoð.

50. mál
[15:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. flutningsmönnum fyrir frumkvæðið sem mér sýnist vera afar þarft. Um leið tek ég undir með síðasta ræðumanni sem ég held að hafi snert kjarna málsins án þess að fella nokkurn blett á þá hv. þingmenn sem hér reyna að bæta úr þótt í litlu sé. Kannski þurfum við einmitt að gera þetta og eigum það eftir á þeim langa vegi sem þing og þjóð hafa farið að viðurkenna nauðsynina á því að við séum öll saman í einu samfélagi þar sem hver og einn hefur réttindi og við auðvitað öll skyldur hvert við annað og eigum að reyna að flytja okkur eins og hægt er tæknilega og hugmyndafræðilega frá ölmusuhugsun 19. aldarinnar, Viktoríutímans sem kallaður er á Englandi, tíma stéttastríðs og einhvers konar hákristilegrar þröngrar góðgerðahugsunar, og yfir á þá öld sem við lifum nú á og verðum vonandi fremri að því leyti einmitt að ekki verði í boði einhvers konar styrkir eða bætur fyrir einstaka hluti eða þjónustu sem starfsmenn ríkisins hafa skilgreint í umboði þingmanna eða yfirvalda, heldur verði aðstæður hvers einstaklings metnar að því leyti og honum fengnar í hendur þær forsendur sem hann telur, að sjálfsögðu í samráði við opinbera aðstoðarmenn, að geti veitt honum þau lífsgæði sem sjálfsagt er að hann hafi og þann rétt, ég kalla það rétt, sem hver og einn einstaklingur hefur líka til þátttöku í samfélaginu sjálfum sér og því til gagns. Við vitum að slíkt gagn þarf ekki endilega að vera efnislegt heldur getur hver og einn gert samfélagi sínu og náunganum gagn með því einu að vera til án þess að ég vilji setja alla þá sem hér um ræðir á þann stall að þeir geti ekki meira. Við höfum séð dæmi um hið gagnstæða hjá afreksfólki úr hópi fatlaðra og hópi bótaþega að undanförnu í íþróttum og í stjórnmálum. Minnumst bara stjórnlagaþingmanns sem ég held að hafi verið kosinn á Rás 2 maður ársins fyrir nokkrum árum og hefur vakið almenna hylli þótt hann geti hvorki hreyft sig fram né aftur án aðstoðar. Ég held að þetta sé sú hugsun sem við þurfum að hafa þegar við höldum áfram með umbúnað í þessum málaflokki.

Mig langaði að spyrja um að auki við þetta mál af því það vekur forvitni mína, en líka vegna þess að þingsköp áskilja okkur þingmönnum þegar við flytjum mál að gera grein fyrir kostnaðinum, hvað hér kunni að vera um marga að ræða á ári eða sem bættust við þann hóp sem nýtur þessara styrkja eða uppbótar og hver kostnaðurinn kunni að verða árlega við að samþykkja þetta frumvarp á þingi. Það er ekki vegna þess að ég sjái eftir þeim peningum heldur vegna þess að okkur er skylt að standa skil á því hver kostnaður við hluti af þessu tagi kann að verða. Nú veit ég vel að okkur þingmenn skortir stundum tækifæri og aðstæður til að geta fengið slíkan kostnað útreiknaðan eða vita sjálf um hann, en einhverja mynd hefur maður oft af því hvað það þýðir sem maður leggur til. Ég bið því flutningsmenn að gera mér einhverja grein fyrir kostnaðinum.

Almennt er auðvitað um þetta að segja að sem betur fer höfum við lengi búið við þessa þjónustu. Á sínum tíma, ætli það hafi ekki verið á sjötta áratugnum eða þar í kring, urðu mikil umskipti fyrir hreyfihamlaða, eins og þeir eru kallaðir hér, að geta notið þeirra réttinda sem felast í möguleika þeirra á því að geta fest kaup á bíl. Það var ekki sjálfsagt. Aðstæður voru ekki þannig að hver maður gæti eignast bíl eins og menn muna ef minni þeirra nær aftur í þann tíma. Ég man eftir því, til að slá aðeins á kátlegri strengi, að þetta var eitt af því sem jók mjög innflutning á hinum ágætu, ódýru austantjaldsbifreiðum af því að þær voru ódýrastar og hið opinbera gat þá helst veitt stuðning í því formi. Það voru ekki bara hreyfihamlaðir heldur margir þeir sem minni ráð höfðu sem keyptu sér Moskvits, Trabanta og Lödur. Þessar bifreiðar ættu náttúrlega að vera á Þjóðminjasafninu í heilu lagi til að minnast ákveðinna tíma hér í samfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, enda er ég kominn í þrot með umræðuefni í þessu máli. Aðalerindið var annars vegar að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar um hina almennu stefnu í þessu máli og hins vegar að spyrja hv. 1. flutningsmann, Gunnar Braga Sveinsson, að því hver væri hugsanlegur kostnaður við þetta og hvað væri um að ræða marga einstaklinga.

Ég vil líka segja að lokum að ég tel frumvarpið nokkuð vel samið þótt stutt sé. Gert er ráð fyrir að þessi réttindi séu veitt en nokkuð ströng skilyrði sett fyrir því að það sé gert. Það þarf að afla tveggja staðfestinga eða vottorða hjá óskyldum aðilum. Það er auðvitað ekki skemmtilegt fyrir þá sem í því lenda að þurfa að bíða á skrifstofum eða hamast í þessum tveimur, en það er sjálfsagt að fara varlega í byrjun og líta þá á það fljótlega aftur þegar reynsla fæst hvort ekki megi draga úr skilyrðum af þessu tagi þegar öll samskipti hafa liðkast og menn hafa meira á tilfinningunni hvenær eðlilega sé staðið að þessum hlutum.