140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

Evrópumál.

[15:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í ályktun utanríkisnefndar Evrópusambandsins um stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB kemur ýmislegt merkilegt fram. Þar er lýst mikilli ánægju með brotthvarf hv. þm. Jóns Bjarnasonar úr ráðherrastóli og fögnuði yfir því að nú sé hæstv. allsherjarráðherra Steingrímur J. Sigfússon kominn í hans stað. Hvaða ástæðu hefur Evrópusambandið til að fagna sérstaklega þessum ráðherraskiptum? Á hvaða hátt verður hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon þægilegri í samskiptum og viðræðum við Evrópusambandið?

Af lýsingu utanríkisnefndarinnar að dæma virðist það ekki hvað síst liggja í því að aðlögun Íslands að Evrópusambandinu muni nú ganga betur fyrir sig. Engu að síður eru Íslendingar hvattir til að herða á aðlöguninni og breyta lögum í samræmi við það sem til er ætlast til að undirbúa aðild. Sem sagt, menn vonast til þess að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon verði mun minni fyrirstaða en fyrirrennari hans hvað varðar aðlögun en sjá engu að síður ástæðu til að hvetja menn til að herða róðurinn.

Jafnframt er ríkisstjórnin hvött til að mynda sér sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu og Evrópusambandsaðild. Hvert er viðhorf hæstv. ráðherra til þess? Verður slík sameiginleg stefna ríkisstjórnarinnar mótuð? Mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð ef til vill bara láta lítið fyrir sér fara í umræðum um þetta mál eða mun hún fallast á stefnu Samfylkingarinnar eins og mér sýnist á ályktun utanríkisnefndarinnar að til sé ætlast?

Ég ítreka spurninguna: Gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir því að menn muni á einhvern hátt stilla saman strengi í ríkisstjórninni hvað varðar viðhorf til Evrópusambandsaðildar?