140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

Evrópumál.

[15:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur þá ávarpað mig rétt þegar hann kemur með þessa sömu fyrirspurn í næstu viku, þetta er endurtekið efni á þinginu að undanförnu. Ætli það sé ekki í sjötta sinn sem ég svara í aðalatriðum sömu spurningum frá hv. þingmönnum.

Ég átta mig ekki á því hvað veldur kæti þessarar nefndar úti í Evrópu sem hv. þingmaður vitnar í. Við forveri minn erum sammála í grundvallarafstöðu okkar til Evrópusambandsins sem er stefna okkar flokks, að það þjóni ekki heildarhagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið. Á því hefur engin breyting orðið. (Gripið fram í: Af hverju …?) Enn fremur störfum við í þessu máli á grundvelli þeirrar ályktunar sem Alþingi samþykkti og þeirrar leiðsagnar sem er að finna í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Það er það leiðarljós sem unnið er eftir í þessum efnum og sem ég veit ekki betur en að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar á öllum tímum hafi gert.

Að öðru leyti hafa stjórnarflokkarnir gengið þannig frá þessu máli sín í millum að þeir virða og viðurkenna ólíka stefnu hvors um sig og hafa fullt frelsi til að halda henni fram og berjast í samræmi við hana. Á því verður engin breyting þannig að ég held að þessi ágæta nefnd þarna úti í Evrópu hljóti að verða fyrir miklum vonbrigðum að þessu leytinu til. Mér sýnast vera innstæður fyrir hvorugu sem hv. þingmaður vitnaði í hvað nefndina varðar og ég átta mig ekki á því af hverju menn telja ástæðu til að fjalla um þetta sérstaklega þarna eða gera úr þessu stórt mál nema ástandið sé svo dapurlegt í Evrópu að menn grípi hvert hálmstrá sem þeir finna til að reyna að gera sér upp einhverja kæti þótt af litlu tilefni sé.