140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

Evrópumál.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra amast við því að hann sé þráspurður um sömu hlutina og segir ekkert hafa breyst. En það sem hefur augljóslega breyst frá því að hann var spurður um svipaða hluti síðast er að utanríkisnefnd ESB hefur sent frá sér yfirlýsingu sem gengur í berhögg við það sem hæstv. ráðherra sagði. Hæstv. ráðherra er með svörum sínum greinilega búinn að valda alþjóðlegum misskilningi.

Ég ítreka spurninguna sem hæstv. ráðherra svaraði reyndar að nokkru leyti en ég vil fá skýrara svar við henni: Mun hæstv. ráðherra sem sagt ekki verða við beiðni Evrópusambandsins um að reyna að mynda einhvers konar sameiginlega stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum? Ástæðan fyrir því að Evrópusambandið spyr er sú að menn eiga því ekki að venjast að menn sæki um aðild að Evrópusambandinu nema vegna þess að þeir vilji ganga í það. Könnunarviðræður, kíkja í pakkann og allt það er nokkuð sem menn kannast einfaldlega ekki við á þeim bæ.

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni standa vörð um makrílveiðar Íslendinga að sama marki og (Forseti hringir.) fyrirrennari hans gerði. Með öðrum orðum: Mun hann færa víglínuna í þeim viðræðum eitthvað?