140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

ályktun utanríkisnefndar ESB.

[15:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fylgdist af athygli með orðaskiptum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði að þeir, hann og forveri hans í embætti, væru algjörlega sammála þegar kæmi að afstöðunni til Evrópusambandsins og það væri engin innstæða fyrir þeirri ályktun sem gerð var 6. febrúar sl. í utanríkisnefnd Evrópusambandsins.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Ber að líta svo á að þessi ályktun sé einn allsherjarmisskilningur, það hafi verið tilefnislaust af hálfu utanríkisnefndar að fagna því að þessi ráðherraskipti hefðu orðið og að ályktunin um hrókeringar í ríkisstjórninni væri þá á fullkomnum misskilningi byggð? Þetta er fyrsta spurningin.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra, úr því að svona er og úr því að hér liggur fyrir þessi ályktun frá utanríkisnefnd Evrópusambandsins, hvort hæstv. ráðherra telji ekki ástæðu til að mótmæla því harðlega, kannski héðan úr ræðustól Alþingis, að þessi ályktun hafi verið samþykkt og mótmæla sérstaklega þeim efnisatriðum sem þar koma fram.

Að öðru leyti vil ég víkja athyglinni að þessari ályktun í heild. Um er að ræða heilmikla ályktun, ég hef lesið hana frá orðið til orðs, og það sem vekur athygli manns er ekki síst það að þarna ályktar utanríkisnefnd Evrópusambandsins mjög skilmerkilega um einstök atriði í íslenskri innanríkispólitík. Mér finnst hér vera um að ræða inngrip af hálfu utanríkisnefndarinnar í íslensk innanríkismál. Nefndarmenn tjá hug sinn til ólíkra málaflokka eins og atvinnumála, stjórnarskrárinnar, fjölmiðlalöggjafarinnar, spurningarinnar um erlenda fjárfestingu og þar fram eftir götunum og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hann þetta eðlilegt? Telur hann eðlilegt að núna þegar við erum að sækja um aðild opni það svona almennt á að Evrópusambandið álykti hér um einstök mál? Það er ekki bara að utanríkisnefndin (Forseti hringir.) hafi skoðun á hrókeringum í ríkisstjórninni, hún hefur líka skoðun á ýmsum öðrum einstökum málum sem hún leggur greinilega mat sitt á, hvetur okkur til (Forseti hringir.) dáða í ýmsum efnum og hælir okkur í öðrum. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)