140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

rammaáætlun í orkumálum.

[15:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við bíðum hér enn eftir því að frétta af því í þinginu hvað verður um rammaáætlun. Stjórnvöld halda því fram að engar ákvarðanir verði teknar um frekari framkvæmdir á sviði orkufreks iðnaðar fyrr en rammaáætlun liggur fyrir. Hún var sett í faglegt ferli og naut almenns trausts, sú vinna sem fór af stað varðandi rammaáætlun, en á síðustu metrunum var henni komið fyrir í pólitískri vinnu ráðherra í ríkisstjórninni. Það hefur ætíð verið ljóst að Alþingi á að eiga síðasta orðið um rammaáætlun, en nú hefur verið vélað um faglegar niðurstöður og virðist sú vinna enn vera í gangi og einhver hrossakaup innan ríkisstjórnarinnar um þá rammaáætlun eða tillögu sem verður lögð fyrir þingið. Þannig hurfu til dæmis ýmsir virkjanakostir úr nýtingarflokki í verndunar- og biðflokk. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við eigum von á því að enn frekari breytingar séu í farvatninu á tillögunni en þær sem við höfum nú þegar séð.

Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem kom fram í fjölmiðlum í morgun, þar sem talað var um að reyna ætti að ná sátt í ríkisstjórnarflokkunum áður en áætlunin kæmi til þingsins þannig að hún tæki ekki breytingum í meðförum þingsins. Ef þær upplýsingar reynast réttar virðist vera svo komið að ríkisstjórnin ætli að véla um þetta mál, lenda einhverri niðurstöðu í ríkisstjórnarflokkunum og hindra í raun þinglega meðferð málsins. Það yrði ákaflega fróðleg niðurstaða ef svo yrði og ekki dæmi um mjög málefnaleg vinnubrögð.