140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

rammaáætlun í orkumálum.

[15:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Því er til að svara að þetta er mál sem er gríðarlega umfangsmikið, er í eðlilegu ferli og tekur langan tíma, að sumu leyti lengri tíma en áætlað var. Það kom gríðarlegur fjöldi athugasemda fram, raunar 225 athugasemdir, sem þarf auðvitað lögum samkvæmt að taka afstöðu til á efnislegum grunni. Samkvæmt lögum um rammaáætlun er gert ráð fyrir að þingsályktunartillaga verði síðan lögð fram í samstarfi tveggja ráðherra, iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra segir í lögunum, þannig að við erum að uppfylla lagaskyldu með því samráði. Við erum að gera þetta í fyrsta sinn. Það skiptir máli að vanda sig.

Hv. þingmanni til upplýsinga stendur til, samkvæmt lögunum enn og aftur, að leggja tillöguna fyrir þingið til að afgreiða málið í fyllingu tímans eftir þinglega meðferð að sjálfsögðu. Þetta er lögboðið ferli og er mikilvægt að hafa í huga að hér er verið að freista þess að marka algjörlega nýtt upphaf.

Þau svæði sem fara í nýtingarflokk fara sem slík í það ferli með tilheyrandi umhverfismati, skipulagsákvörðunum o.s.frv. Þau svæði sem fara í verndarflokk fara í friðlýsingarferli, en þau sem fara í biðflokk bíða frekari ákvarðana til betri tíma eðli málsins samkvæmt. Ég hef viljað, virðulegur forseti, halda til haga einni spurningu í þessu ferli öllu saman sem ég held að sé okkur hollt að gera. Það er það vald sem núlifandi kynslóðir taka sér í því að marka slíkar ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir. Ég tel það mikið umhugsunarefni. Ég held að það sé rétt og ábyrgt af stjórnvöldum á öllum tímum að vera vakandi fyrir þeim (Forseti hringir.) ákvörðunum sem teknar eru, ekki síst þegar þær eru teknar fyrir hönd ófæddra barna.