140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

málfrelsi grunnskólakennara.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir hér mál sem snúa eiginlega að framkomu kennara og starfsfólks skóla utan vinnutíma ef svo má að orði komast. Það er kveðið á um það í grunnskólalögum að starfsfólk skólanna skuli sinna sínum störfum af trúmennsku, fagmennsku og alúð, ef ég man rétt. Hins vegar hefur Kennarasambandið síðan samþykkt sérstakar siðareglur um hvaða siðferðislegu skilyrði eða standarda sé æskilegt að viðhafa í starfi kennara og þar er til að mynda rætt um það að kennarar skuli vinna gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur kunni að verða fyrir og koma að sjálfsögðu vel fram við nemendur, vinna að góðum starfsanda og sýna nemendum virðingu. Ég held að það eigi við bæði innan starfsvettvangs og utan.

Hv. þingmaður nefnir hér orðið málfrelsi og ég veit ekki hvort það er rétt að nota það en í þessum siðanefndum er rætt um að kennurum beri að sýna öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Ég held að það hljóti að eiga við almennt, ekki aðeins innan viðkomandi skóla.

Þessi mál eru alltaf flókin, ekki bara í grunnskólum heldur líka í framhaldsskólum. Þar getur verið fín lína á milli þess þegar við tölum um málfrelsi annars vegar og hins vegar að sýna nemendum og kennurum og fólki almennt virðingu. Ég held að það skipti miklu máli að við horfum til þess að það er ekki endilega rétt að leysa þessi mál innan lagaramma, þar er kveðið á um góðan skólabrag og þetta sem ég nefndi áðan með fagmennsku og trúmennsku í starfi, en líka að skólameistarar og skólastjórar, skólanefndir í tilviki grunnskólanna sem eru reknir af sveitarfélögunum, taki síðan á málum sem upp koma í hvert sinn, taki þau til umræðu og bregðist við með einhverjum (Forseti hringir.) hætti.