140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

áhrif banns við formerkingum á verðlag.

445. mál
[15:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna og sérstaklega svör hæstv. ráðherra sem mér fundust vera skilmerkileg og í samræmi við það sem komið hefur fram að einhverju leyti, að minnsta kosti hjá Samkeppniseftirlitinu, enda geri ég ráð fyrir því að upplýsingarnar hafi komið þaðan.

Ég spurði að gefnu tilefni vegna þess að talsverð umræða hefur verið um þessi mál. Neytendasamtökin ályktuðu til dæmis sérstaklega um það ekki fyrir löngu að þau hefðu áhyggjur af því að breytingin kynni að hafa haft það í för með sér að álagning verslana hefði hækkað og óttuðust að bann við formerkingum hefði misst marks. Verðsamkeppni með ákveðna vöru hefði því hugsanlega ekki verið eins og ætlað var.

Miðað við þær tölur sem hæstv. ráðherra reiddi fram sýnist mér að aðgerðirnar hafi frekar haldið aftur af verðhækkunum, en hér er um að ræða skoðun á tímabili sem ekki er mjög langt. Þess vegna er ástæða til þess, eins og fram kom, að fylgjast náið með þróuninni.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir hvers konar verðsamráð, ekki síst fyrir minni verslanir sem alltaf munu standa höllum fæti við þær aðstæður, það gefur augaleið. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að það skönnunarfyrirkomulag sem ryður sér þar til rúms þýði ákveðna fjárfestingu og að það kunni síðan að leiða til samkeppnislegs óhagræðis fyrir minni verslanir. Mér finnst ástæða til að skoða það alveg sérstaklega. Ég veit ekki hvort það hefur áhrif á það magn sem fólk kaupir, það er áhugavert að velta því fyrir sér, en aðalatriðið er að þegar gripið er til aðgerða sem hafa mikla breytingu í för með sér sé reynt að fylgjast með því hvort þær skili tilætluðum árangri. Þess vegna fagna ég yfirlýsingu (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra.