140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

sauðfjárbú.

430. mál
[16:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fyrstu spurninguna um fjölda sauðfjárbúa þá er staðan sú að alls eru skráðir 2.658 eigendur sauðfjár í landinu en eigendur greiðslumarks eru 1.926. Þetta gefur nokkra hugmynd um umfangið sem þarna er á ferðinni.

Í öðru lagi hvað varðar athugasemdir eða aðvaranir yfirvalda vegna vanrækslu á sauðfé síðustu tíu ár eða undangengin ár er því til að svara að samtals hafa verið gerðar athugasemdir við eftirtalinn fjölda: Árið 2007 voru gerðar athugasemdir við 119 aðila, árið 2008 164, árið 2009 98, árið 2010 108 og árið 2011 77 aðila.

Rétt er að halda því til haga og að það komi skýrt fram að hér er um að ræða athugasemdir sem skráðar eru um sauðfjárhald í heild sinni. Þær athugasemdir geta verið ærið mismunandi og eru alls ekki allar vegna eiginlegrar vanrækslu í meðferð búfjár í venjulegri merkingu þess orðs heldur að einhverju sé ábótavant í þessum tilvikum. Athugasemdirnar geta til dæmis lotið að ófullnægjandi merkingum og öðru slíku þannig að það verður að hafa þann fyrirvara á og tölur sem mundu þá lúta beinlínis að athugasemdum vegna þess að meðferð fjárins sem slíks væri ábótavant eru þar af leiðandi lægri en þær sem þarna voru nefndar.

Varðandi kostnaðinn, áætlaðan kostnað sveitarfélaga af eftirliti með sauðfjárbúum, vandast málið því að hvorki hjá Matvælastofnun né hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er hægt að aðgreina beint þann kostnað sem sveitarfélögin hafa af eftirliti með sauðfjárbúum. Í raun og veru er ómögulegt að áætla það nákvæmlega, eftir því sem fram kemur hjá sambandinu, nema fara ofan í vinnuskýrslur hjá hverjum og einum búfjáreftirlitsmanni en þeir eru allmargir eins og kunnugt er, þ.e. ef menn ætluðu að reyna að átta sig á kostnaðinum sem tengdist sauðfjárbúunum einum sérstaklega.

Í hagupplýsingum þeim sem Samband ísl. sveitarfélaga tekur saman er landbúnaðurinn þar undir sem safnliður og undir hann fellur kostnaður við búfjáreftirlit, fjallskil og annað er málaflokkinn varðar. Á árinu 2010 var þar um eftirtaldar fjárhæðir að ræða að laun og launatengd gjöld voru 17.399 þús. kr., annar rekstrarkostnaður 181.489 þús. kr. eða alls 198.888 þús. kr. Þessu til frádráttar komu þjónustutekjur að upphæð tæpar 60 millj. kr. sem gerir það að verkum að heildarútgjöldin vegna landbúnaðar voru rúmar 139 millj. kr.

Þess má geta í þessu samhengi að áætlun sem nú hefur verið unnin vegna kostnaðarmats við nýja heildarlöggjöf um velferð búfjár og ný lög um búfjárhald, sem vonandi eru rétt í þann veginn að koma hér til þings, er niðurstaðan sú að kostnaður við búfjáreftirlit í heild og á landinu öllu sé nálægt 83 millj. kr. og þar af séu um 77 millj. kr. vegna reglubundinnar starfsemi búfjáreftirlits og 5 millj. kr. vegna óreglulegs kostnaðar samfara þvingunarúrræðum og öðru slíku. Er ástæða til að ítreka að hér er verið að ræða um kostnað við eftirlit með búfjárhaldi landsmanna í heild en ekki bara vegna sauðfjárbúskaparins. Þetta eru í grófum dráttum stærðirnar sem þarna eru á ferðinni með þeim fyrirvörum sem hér hafa fram komið.

Að öðru leyti hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi, þó að ekki væri beinlínis um það spurt, eins og til dæmi um að leyfisskylda þessa starfsemi, gefst auðvitað gott færi á að ræða þá hluti þegar áðurnefnd frumvörp, sem vonandi verður senn, koma til þingsins sem snúa einmitt að velferð búfjár og nýjum lögum um búfjárhald. Þar er verið að reyna að ná utan um þetta með heildstæðum hætti og mikilvægt að þingið komist sem fyrst að því máli þannig að það geti farið yfir það fyrir sitt leyti, þar á meðal spurninguna um hvort gera eigi ríkari kröfur til manna þannig að þeir geti verið með þessa starfsemi eða jafnvel að leyfisbinda hana. Það verður að segjast að í ákveðnum tilvikum hafa verið vandkvæði uppi og sveitarfélög hafa í vissum tilvikum, sem ég get trúað að við hv. þingmaður þekkjum báðir dæmi um, kvartað undan því að þau séu í erfiðri stöðu til að sinna skyldum sínum í þessum efnum ef þau ná ekki samstarfi við þann sem fyrir búfjárhaldinu stendur og deilur standa um (Forseti hringir.) hvort sem heldur er ásetning, fóður eða fjallskil.