140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

sauðfjárbú.

430. mál
[16:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að af og til koma í fréttum upplýsingar um tilvik þar sem misbrestur er á því að staðið sé með fullnægjandi hætti að búfjárhaldi. Ég vil þó leyfa mér að vekja um leið athygli á að þau tilvik eru blessunarlega fá og að sjálfsögðu undantekningar. Ef við leikum okkur aðeins með þær tölur sem ég nefndi um fjölda athugasemda af öllu tagi sem gerðar eru árlega er hann kannski af stærðargráðunni 4–5% á ári, en það eru mjög margvíslegar athugasemdir sem langt í frá allar lúta að vanrækslu í þeim þrönga skilningi að ekki sé nægjanlega vel farið með búfé, þ.e. að það sé ekki nægjanlega vel fóðrað eða annað í þeim dúr. Það geta verið merkingar og margt, margt annað sem þarna er á ferðinni þannig að við getum snúið þessu við og gagnályktað að að uppistöðu til er þetta í góðu lagi. Það er auðvitað ánægjulegt en það gerir það ekki að verkum að við séum sátt við hin tilvikin og að sjálfsögðu þarf að taka á því.

Varðandi spurninguna um að leyfisskylda þessa starfsemi sem slíka er náttúrlega rétt að vekja athygli á að margs konar skyldur, lög og reglur gilda að sjálfsögðu um þessa starfsemi eins og aðra og menn þurfa að undirgangast ýmsar kvaðir og uppfylla skyldur af margvíslegu tagi. Spurningin er þá meira um það, svona í atvinnuréttarlegum eða faggildingarlegum skilningi, hvort þetta eiga að vera beinlínis formleg starfsleyfi sem til þarf. Það hefur vissulega ekki verið og á sér kannski ýmsar skýringar. Ég ætla ekki að útiloka að það geti verið niðurstaðan, ég ætla heldur ekki að slá því föstu. Það fer dálítið eftir því hvernig menn kjósa að búa um þetta, hvort menn vilja reiða sig á lög um búfjárhald og um velferð búfjár og annan lagagrundvöll og reglugerðir sem um þetta gilda eða hvort menn vilja nálgast þetta frá leyfahugsun þannig að menn fái starfsleyfi sem hægt væri að taka af þeim ef þeir brytu af sér, en það þyrfti þá að vera hugsunin (Forseti hringir.) ef við værum að tala um þetta í því samhengi að taka á svona tilvikum.