140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

hvalveiðar og stjórn fiskveiða.

452. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þetta eru þrjár fyrirspurnir í beit um hvalveiðar. Þær eru orðnar nokkuð við aldur miðað við fyrirspurnir hér á þinginu og var upphaflega beint til fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég sé að orðalagið hefur sums staðar úrelst í þeim, ég vona að núverandi hæstv. ráðherra taki það ekki illa upp.

Það verður líka að taka fram að það var ekki eingöngu fyrrverandi ráðherra að kenna að ekki náðist að afgreiða málið, svara fyrirspurnunum, heldur átti fyrirspyrjandi þar hlut að máli líka.

Allar þessar fyrirspurnir tengjast með einum eða öðrum hætti, eins og sumir segja, þingi Alþjóðahvalveiðiráðsins síðasta sumar, en um það og afstöðu íslenskra stjórnvalda þar var haldinn sérstakur sameiginlegur fundur utanríkismálanefndar og umhverfisnefndar, sem þá hét, í haust leið.

Mikilvægt er að afstaða íslenskra stjórnvalda komi alveg skýrt fram í þessum málum hér á þingi og ekki bara í endursögn embættismanna. Að því sögðu hljóðar fyrsta spurningin — nú er ég ekki einu sinni með hana — en hún fjallar auðvitað um stjórn fiskveiða og stjórn hvalveiða, og að hve miklu leyti það fari saman. Þetta er mikilvæg grundvallarspurning vegna þess að margir hafa í þessari umræðu síðustu ár bent á þá ágætu staðreynd að sumir hvalir éta fisk. Það gera reyndar líka selir, rostungar og hvítabirnir. Sjófuglar eru sennilega einhverjar skæðustu fiskætur veraldar, að undanskildum þó öðrum — ég þakka hv. þingmanni fyrir að rétta mér þetta blað — fiskum sem éta líka mikið af fiski. Það er hins vegar ljóst um þær hvalategundir sem hér eru veiddar, hrefnu og langreyði, að önnur þeirra étur fisk sem Íslendingar veiða en hin tegundin lifur einkum á svifi. Þetta rekur Tómas H. Heiðar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, embættismaður í Stjórnarráðinu, í grein í Independent, ensku eða bresku blaði, 23. júní 2010, og segir meðal annars í snörun að á miðunum hér sé samkeppni milli hvala og sjómanna. Hrefnan éti til dæmis þorsk en langreyðurin éti fæðu sem aðrir fiskar lifa líka á. Við, segir Tómas H. Heiðar, þ.e. Íslendingar, höfum aflað gagna, „produced estimates“ heitir það á frummáli Tómasar, sem sýna að ef við fengjum að stunda sjálfbærar veiðar gætum við aukið fiskveiðikvótann.

Nú er spurt af því að Tómas talar: Er þetta líka álit núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Ef svo er, hvaða gögn eru það þá sem sýna það að við getum aukið kvótann með meiri hvalveiðum?

Þá væri um leið fróðlegt að vita hversu margir þorskar fást á land fyrir hverja hrefnu og hverja langreyði?

Nú vill svo vel til að náttúrufræðingur er í sessu sjávarútvegsráðherra þannig að von er á traustum svörum.