140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

frumbyggjaveiðar á hval.

454. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þótt þetta séu þrjú mál er umræðan samhangandi og þá er rétt að nota tækifærið og fagna því sérstaklega að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætli að ráðast í heildarendurskoðun á stöðunni í þessum málaflokki í samræmi við þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn setti fram í upphafi.

Við þriðju fyrirspurn ætlar fyrirspyrjandi ekki að gera athugasemdir við eigið orðalag.

Það var í fréttum sumarið 2011 frá þingi Alþjóðahvalveiðiráðsins á Jersey að fulltrúi Íslands lýsti því þar yfir að í sínum huga og þá væntanlega íslenskra stjórnvalda væri ekkert til sem héti frumbyggjaveiðar heldur bara tvenns konar veiðar — annars vegar vísindaveiðar og hins vegar iðnaðarveiðar eða verslunarveiðar, hvað sem á að kalla þær á íslensku, þ.e. „kommersíal“-veiðar. Þetta vekur athygli en ekki hafa fengist neinar skýringar á því enn hvað standi þar á bak við.

Fulltrúar ríkjanna í Alþjóðahvalveiðiráðinu eru sem kunnugt er í miklum þrætum og hafa verið lengi, en þeir hafa samt verið einhuga um það prinsipp að frumbyggjar fái kvóta til sinna hefðbundnu hvalveiða. Þær eru austast við Síberíustrendur, við Grænland auðvitað, norður- og norðvesturströnd Norður-Ameríku, þ.e. í Kanada og í Alaska og Washington-fylkjum í Bandaríkjunum, þar að auki skilst mér að til sé þjóðflokkur á indónesískum eyjum sem heiti lamalerar og veiði örlítið af hval og svo eru víst tveir karlar með skutla í Karíbahafinu að veiða með 20 dýra kvóta, minnir mig, á fimm árum. Ekki er til samræmd skilgreining á þessum frumbyggjaveiðum heldur er hvert tilvik skoðað fyrir sig. Gert er ráð fyrir að á ferð séu nokkurn veginn trúverðugir frumbyggjar, að veiðarnar styðjist við langa hefð, að aflans sé neytt í þorpunum eða á landinu, ekki sé verslað með hann eða þess háttar veiðar, að aðferðirnar við veiðiskapinn séu þokkalega hefðbundnar og að veiðarnar séu stundaðar á hefðbundnum fleyjum, a.m.k. ekki á nútímaskipum með sprengiskutlum. Kvótinn er takmarkaður og þess gætt að hann gangi örugglega ekki nærri viðkomandi stofni. Það er sumsé sjálfsþurftarbúskapur hefðskipaðra ættflokka en ekki nútímalegar iðnaðarveiðar sem um er að ræða.

Það kom á óvart að fulltrúi íslenskra stjórnvalda skyldi lýsa því yfir í fyrrasumar að þessar veiðar væru í andstöðu við stefnu íslenskra stjórnvalda, eða væru það að minnsta kosti ekki í sínum huga eða stjórnvalda, heldur samjafnandi við þær veiðar sem stundaðar eru með nútímalegum (Forseti hringir.) iðnvæddum hætti.