140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

frumbyggjaveiðar á hval.

454. mál
[16:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mál er varða hvalveiðarnar hafa alloft komið til umfjöllunar á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur komið fyrir nefndina og rætt þau mál og einnig fulltrúar Íslands í samninganefndum á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta álitamál um frumbyggjaveiðar, vísindaveiðar eða veiðar í atvinnuskyni, hefur auðvitað borið á góma. Maður hefur stundum fengið á tilfinninguna að í málflutningi Íslands sé enginn greinarmunur gerður á því sem menn kalla frumbyggjaveiðar og þeim hvalveiðum sem Íslendingar stunda.

Ef ég skil hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra rétt er hann ekki þeirrar skoðunar. Ég fagna því ef svo er. Mér finnst mikilvægt að fram komi að við gerum ekki athugasemdir við það sem við getum skilgreint skýrt sem frumbyggjaveiðar og við setjum ekki veiðar okkar í þann flokk.